136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

stéttarfélög og vinnudeilur.

36. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Það mál sem ég mæli fyrir og flutt er af þeim sem hér stendur ásamt hv. þm. Grétari Mar Jónssyni er gamall kunningi í sölum Alþingis, hefur verið flutt þó nokkrum sinnum í þinginu og margir þingmenn hafa kynnt sér það vel og því er ekki nauðsynlegt að fara í mjög langa ræðu um efni þess. Það byggir á því að auka réttindi launafólks, tryggja að ef kjarasamningar dragast mjög á langinn eigi launafólk, þegar þannig hagar til að ekki kemst á kjarasamningur mánuðum saman, rétt á sambærilegum launabreytingum og öðrum launamönnum hafa verið tryggðir fyrir sömu tímabil eða ár ef svo hagar til að gerð kjarasamninga dregst verulega á langinn.

Vissulega er dæmi til þess að gerð kjarasamninga hafi dregist mánuðum saman og jafnvel árum saman. Í fylgiskjali með þessu máli er tafla sem sýnir m.a. hvernig kjarasamningar sjómanna hafa iðulega dregist á langinn og þeir hafa búið við fjöldamörg samningslaus tímabil, það er rakið í sérstakri töflu alveg frá 1985 og fram til 2004. Það kemur í ljós ef menn líta á þessa töflu að kjarasamningar sjómanna hafa stundum dregist um hálft annað ár, iðulega í meira en ár og nokkrum sinnum í 10–11 mánuði. Það liggur því alveg ljóst fyrir að launþegasamtök lenda stundum í því að vera með lausa kjarasamninga, ekki bara mánuðum saman heldur árum saman.

Þetta hefur átt sér stað hjá fleiri samtökum launafólks en fiskimönnum þó að það dæmi sé tekið hér og sýnt sem rökstuðningur fyrir því að huga að þeirri réttarbót sem hér er lögð til. Réttarbótin felst í því að lög um stéttarfélög og vinnudeilur yrðu algjörlega óbreytt nema því aðeins að það dragist í meira en sex mánuði að koma á kjarasamningi. Sú breyting sem hér er lögð til á lögunum hefur enga virkni fyrr en menn hafa staðið uppi með það að vera með engan kjarasamning í sex mánuði, þá fer hún að hafa virkni og kveður á um að þá sé lögbundið að þegar semst virki upphafshækkun kjarasamninga aftur fyrir sig í tíma og endi með því, ef kjarasamningar dragast lengur en tólf mánuði eða meira, að þá gildi sú lausn sem kemur út úr kjarasamningnum frá upphafsdegi þess að kjarasamningur féll úr gildi.

Þannig er eiginlega settur inn í þetta annar hvati en nú er í kjarasamningsgerðinni, þ.e. að eins og nú er þá geti það geti verið hagur atvinnurekanda að draga kjarasamningsgerð um langan tíma vegna þess að umsamin ákvæði til hækkunar á launaliðum eða öðrum kjörum komi þá ekki til framkvæmda nema frá og með þeim degi sem samningar komast á, hvort sem það verður eftir níu mánuði, tólf mánuði eða eitt og hálft ár eða jafnvel hátt í tvö ár, eins og má finna dæmi um. Þarna væri verið að tryggja að það skapaðist ákveðin réttarstaða til handa launþegunum um að ef ferlið dregst um sex mánuði byrji það að virkja aftur fyrir sig til þriggja mánaða og ef það dregst aftur um sex mánuði til viðbótar virki það um einn mánuð í viðbót aftur fyrir sig fyrir hverja tvo sem samningar dragast og hækkunarákvæði yrðu þá frá og með því að kjarasamningur féll úr gildi eftir heilt ár. Þá er það orðið sjálfkrafa lögbundið að hver svo sem upphafshækkun samninganna yrði þegar um væri samið gilti hún frá upphafsdegi.

Vissulega hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að í kjarasamningum hefur verið stundum kveðið á um að ákveðnar hækkanir tækju ekki gildi bara frá undirritun samninga heldur virkuðu aftur fyrir sig en yfirleitt hefur það ekki verið frá því að kjarasamningur féll úr gildi heldur hafa þarna verið talsverð tímabil á milli og mislöng eftir stéttum og átakapunktum og hægt að finna því dæmi í stéttabaráttu Bandalags háskólamanna og fleiri stétta, sjúkraliða o.s.frv., sem slík lagaákvæði sem hér um ræðir mundu þá ná til ef svo hefði gengið til í kjarasamningsferlinu.

Hér er því verið að leggja til réttarbót launþegum til handa en ég ítreka að þó svo að það dragist að gera kjarasamninga í allt að sex mánuði hefur þessi tillaga að lagabreytingu engin áhrif, enga virkni. Virknin byrjar ekki fyrr en samningar hafa verið lausir í sex mánuði eða lengur og leiðir að lokum til þess að það verði lögbundið að umsamin ákvæði gildi frá upphafstíma þess þegar samningur féll úr gildi ef það fer á annað ár að dragist að gera kjarasamning.

Þetta er meginefni frumvarpsins og þar sem það hefur áður verið til umfjöllunar í hv. þingi hefur það verið sent til launþegasamtaka. Ég kíkti á umsagnir sem bárust í fyrra, því að við erum búin að flytja þetta mál í nokkur skipti, eins og ég gat um áður. Hér er t.d. umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandinu þar sem það lýsir sig algjörlega sammála markmiðum frumvarpsins og telur að í ljósi reynslunnar sé í raun um mikið réttlætismál að ræða.

Sama má segja um umsögn Félags vélstjóra og málmtæknimanna þar sem farið er yfir þau rök sem í frumvarpinu eru og síðan segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er hér um verulega réttarbót að ræða sem Félag vélstjóra og málmtæknimanna styður“ — heils hugar.

Alþýðusambandið sendi umsögn um málið á síðasta ári og þar er ekki tekið undir að það efni sem hér um ræðir verði lögfest á þinginu enda sé það hlutverk heildarsamtaka launamanna að semja um kaup og kjör en jafnframt er tekið fram í umsögn ASÍ að sambandið undirstriki og taki undir það með flutningsmanni að mikilvægt sé að nýir kjarasamningar komist á um leið og eldri samningar renna sitt skeið eða sem fyrst þar á eftir. Síðan minnir Alþýðusambandið á að það hefur verið reynt að taka upp breytt verklag um svokallaðar viðræðuáætlanir sem voru settar inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur fyrir nokkrum árum í tengslum við gerð kjarasamninga og eftirfylgni með framkvæmd þeirra. Ég held að menn séu sammála um að í mörgum tilfellum hafi það verið til bóta þó að það sé ekki algilt að það hafi gengið neitt betur að ná málunum saman með því markmiði.

ASÍ segir svo í niðurlagi máls síns að þó að það sé ekki fylgjandi því að þetta verði sett í lög sé sambandið samt sammála flutningsmanni um þau markmið sem frumvarpið ber í sér, þ.e. að koma fram kjarasamningum með virkari hætti og skilvirkari hætti en kannski verið hefur og tryggja að á rétt launamanna sé ekki gengið mánuðum og árum saman án þess að réttarstaða þeirra sé aukin.

Um það snýst þetta mál, hæstv. forseti, og ég vænti þess að þingheimur sjái að það sé rétt að taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Í ljósi þess sem hæstv. forseti þingsins sagði við setningu þings, að eðlilegt væri að mál kæmu hér aftur inn til umræðu og atkvæðagreiðslu og afgreiðslu, þá vænti ég þess að um málið verði fjallað í nefnd og í 2. umr. og það komi til afgreiðslu í þinginu. Því miður hefur það ekki verið þannig undanfarin ár heldur hefur málið yfirleitt verið látið frjósa í nefndum þingsins, eins og oft tíðkast um mál sem þingmenn flytja í hv. Alþingi.

Ég ítreka að ég tel að við séum að bæta réttarstöðu launþega. Við erum að vísu að setja meiri pressu á atvinnurekendur, að meiri ávinningur sé að því að ljúka samningsgerð en að láta hana bíða og lenda undir þeim lagaákvæðum að þetta virki aftur fyrir sig í tólf mánuði. Ég held að það sé rétt að þessi hvati sé óbreyttur í sex mánuði en eftir það telji hann hratt á atvinnurekendur sem þurfi þá að taka mið af því að upphafshækkunin skellur á þá hvort sem þeir vilja eða vilja ekki.