136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

stéttarfélög og vinnudeilur.

36. mál
[18:15]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég ætla ekki að fara ofan í það eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur gert, hann hefur útskýrt það. Ég tel mikla þörf á að frumvarpið verði samþykkt. Ég sé fyrir mér að verkalýðshreyfingin í landinu þurfi að fara í mikla baráttu til að bæta kjör sinna manna á næstu árum. Ég held að þetta sé góður liður í því að tryggja að kjarasamningar náist fyrr en ella og það skiptir þá ekki máli þó það dragist aðeins, þeir taka gildi sex mánuðum eftir að síðasti kjarasamningur rann út.

Verkalýðsfélög og stéttarbarátta — viðræðuáætlun er venjulegast byrjuð áður en samningar renna út. Æðioft er það þannig að þrátt fyrir viðræðuáætlanir gengur ekkert fyrr en búið er að hóta verkfalli eða menn hafa boðað til verkfalla, þá nást samningar. Við þurfum ekki að ímynda okkur að í framtíðinni verði mjög auðvelt hjá verkalýðshreyfingunni að ná kjarasamningum. Það verður erfiðara nú en nokkurn tíma áður vegna þess að atvinnulífið stendur illa. Að öllum líkindum verður að stórum hluta uppstokkun í atvinnulífinu og af því leiðir að við erum komnir á ákveðinn byrjunarreit aftur, 50 ár aftur í tímann eða 40, það er óljóst. Erfiðleikarnir verða væntanlega miklir í samskiptum atvinnurekenda og launþega. Enn og aftur segi ég því að þetta góða frumvarp á fullan rétt á sér og hvet ég þingmenn til að styðja það.

Staðan er sérkennileg, hér í þingsalnum eru þrír þingmenn Frjálslynda flokksins, einn frá Sjálfstæðisflokknum og einn frá Vinstri grænum. Verið er að ræða frumvörp og er lítil sem engin þátttaka hjá þingmönnum í þeim umræðum. (Gripið fram í.) Það er rétt að sumir eru breiðari en aðrir og margra manna makar, ég ætla ekki að gera lítið úr því, hv. þm. Árni Johnsen. En þetta er dálítið skondin staða að vera að ræða svona mál með lítilli þátttöku þingmanna. Það er eins með fjölmiðlamennina sem eru ekki til staðar og fjalla ekki um þau mál sem við erum að ræða. Við erum kannski ekki hissa á því í Frjálslynda flokknum vegna þess að flokkurinn hefur verið mjög afskiptur í umfjöllun fjölmiðla, ekki síður en umfjöllun þingmanna, um mál sem við höfum flutt í þinginu.

Þegar maður uppgötvar slíkt afskiptaleysi og litla umræðu í fjölmiðlum um þau mál sem við flytjum finnst manni reyndar stundum líkast því að um einelti sé að ræða. Í sambandi við ýmsa spjallþætti á útvarpsrásum og í sjónvarpsþáttum höfum við verið hunsaðir. Í sjálfu sér kemur það ekki á óvart, við þetta megum við búa, við sem erum í litlum þingflokki. Auðvitað verður bót á því með tíð og tíma. Við eigum eftir að stækka og fá fylgi og sérstaklega þegar fólk áttar sig á öllum þeim góðu tillögum sem við flytjum hér og viljum fá aðra þingmenn til að ræða við okkur um. Okkur finnst því dapurlegt til þess að vita að þingmenn skuli ekki taka meiri þátt í umræðunni.