136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

strandsiglingar.

39. mál
[18:23]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þessi ágæta þingsályktunartillaga um strandsiglingar á fullan rétt á sér með tilliti til þess að nú stöndum við kannski frammi fyrir því að hafnir víðast hvar eru illa nýttar hringinn í kringum landið og vegir á landinu þola illa þá þungaflutninga sem eru í dag. Ef hægt væri að auka flutninga með skipum hringinn í kringum landið væri það til góðs fyrir vegakerfið okkar, ég tala nú ekki um ef litlir peningar verða til á næstunni í viðhald og viðgerðir og nýlagningu vega.

Það er kannski ekki mikið sem þarf að segja um þetta og ég hvet þingheim allan, hvar sem hann er staddur, og ef hann er að hlusta og horfir á og fylgist með þeim umræðum sem hér eru í gangi, að hann nýti sér það og veiti þingsályktunartillögunni brautargengi.