136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

42. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson, Kjartan Ólafsson, Björk Guðjónsdóttir, Grétar Mar Jónsson og Bjarni Harðarson. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta nú þegar hefjast handa um líkantilraunir í líkanstöð Siglingastofnunar til að undirbúa gerð stórskipabryggju í Vestmannaeyjum. Kannaðir verði þrír valkostir, norðan Eiðis, innan hafnar og utan hafnar í Skansfjöru gegnt Klettsvík,“ — þ.e. í innsiglingaleiðinni inn í Vestmannaeyjahöfn — „en þessi þrjú svæði hafa verið til umfjöllunar hjá hafnarstjórn Vestmannaeyja. Mikilvægt er að reikna með a.m.k. tveggja skipa viðleguplássi eða um 500 m kanti.“

Þetta er ákaflega brýnt mál, í hnotskurn vegna þess að breytingar eru að verða á flutningaskipum landsins og á næstu árum má reikna fyllilega með því að til komi skip sem muni ekki geta lagst að bryggju í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjar eru stærsta útflutningshöfn landsins utan Reykjavíkur. Vestmannaeyjar eru fyrst og fremst útflutningshöfn og þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að ekki sé slugsað við að klára það sem gera þarf í undirbúningi þessa máls.

Það liggur ljóst fyrir eins og ég sagði að á næstu árum verða þær breytingar á flutningaskipaflota Íslendinga að skipin munu stækka og þess vegna kann þessi vandi að koma upp. Skip eru á ferðinni á öllum tímum sólarhrings til og frá Eyjum. Vestmannaeyjar eru með um 10% af öllum afla landsins og það gengur ekki að þær yrðu úr leik hvað varðar útflutning landsins, það segir sig sjálft. Þetta er þess vegna brýnt verkefni, nauðsynlegt og full rök fyrir því. Auk flutningaskipanna er mjög vaxandi umferð stærstu farþegaskipa heims til Íslands og mikilvægt að þriðji mest sótti ferðamannastaður landsins um áratugaskeið hafi alla möguleika á þeim vettvangi og til þess þarf auðvitað að bæta aðstöðu á stórskipasvæðum. Það yrði bæði mikil tekjuöflun fyrir Vestmannaeyjahöfn og það yrði jafnframt mikil búbót fyrir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

Siglingastofnun hefur að beiðni hafnarstjórnar Vestmannaeyja unnið frumathuganir á umræddum þremur valkostum, en mikilvægt er að mati flutningsmanna að öll hönnun og líkantilraunir miði a.m.k. við tveggja skipa stórskipakant. Mikilvægt er að hraða líkantilraunum eins og kostur er og vinda bráðan bug að því að byggja upp þessa aðstöðu í Vestmannaeyjahöfn.

Stórskipakantur utan Eiðis, norðan Eiðisins, norðan Heimaeyjar, er fýsilegasti kosturinn vegna nálægðarinnar við aðalathafnasvæði Vestmannaeyjahafnar og möguleika til landauka, en Skansfjara, sem er vestan við Vestmannaeyjahöfn, er einnig magnaður möguleiki þótt aðgengi inn á hafnarsvæðið sé þar ekki eins auðvelt. Stórskipakantur við Lönguna í Vestmannaeyjahöfn yrði við þröngar aðstæður og gæfi ekki mikið svigrúm til mannvirkjagerðar á landi auk þess að mikil höfuðsynd yrði að byggja að sjálfri Löngunni sem er náttúruparadís í sjálfri Vestmannaeyjahöfn og magnað útivistarsvæði framtíðarinnar. Þar er nú eini staðurinn sem hafið kyssir rætur Heimakletts innan hafnar. Engu að síður er þetta valkostur sem þarf að kanna og skynsemin verður að ráða. Auðvitað þyrfti um leið, ef könnuð yrði aðstaða fyrir stórskipalægi við Lönguna, að gera sams konar úttekt við Nausthamarsbryggju því að ekki gæti verið nema eitt stórskipalægi undir Löngunni og þá yrði hitt að vera við Nausthamarsbryggju gegnt Löngunni.

Miklir möguleikar eru á efnistöku í brimvarnar- og hafnargarða í Vestmannaeyjum, en reikna má með að a.m.k. 500.000 rúmmetra þurfi í garða hvort sem er utan Eiðis eða til móts við Ystaklett. Ég bendi á að 500.000 rúmmetrar í garða eru um það bil einn þriðji af því sem menn setja í flóðvarnargarða, snjóflóðagarða bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þetta eru því ekki tölur sem ættu að valda því að mönnum bregði í brún, þetta er einfaldlega það magn sem reikna má með og sem betur fer er það mjög aðgengilegt í Vestmannaeyjum.

Möguleikar eru á efnistöku í nýja hrauninu austur á Urðum, vestur á Skönsum undir Klifi og svo sjálf hrauntungan sem teygði sig inn í miðjan Vestmannaeyjabæ, um 20 m þykk og þekur með þeirri þykkt um 93.000 fermetra lands eða um 1,3 milljónir rúmmetra af mikið til massífu bergi sem auðvelt væri að sprengja. Þessi möguleiki hefur ekki verið ræddur hingað til. Þarna liggur mikið verðmæti bundið og örstutt að flytja það hvort sem er austur á Skansfjöru eða norður fyrir Eiði.

Um 250 stór flutningaskip og farþegaskip koma til Vestmannaeyja á ári þannig að segja má að skip af stærstu gerð séu nær daglega alla virka daga í Vestmannaeyjahöfn. Það sýnir umfangið og hversu brýnt er að þessir hlutir gangi fyrir sig og menn sitji ekki uppi með það að þessi skipafloti geti ekki athafnað sig í Vestmannaeyjahöfn til að sækja þangað verðmæta útflutningsvöru. Komur fiskiskipa af öllum stærðum skipta þúsundum í Vestmannaeyjahöfn á hverju ári.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að það er mikilvægt fyrir eina öflugustu verstöð landsins og þá sem skilar mestu hráefni utan Reykjavíkur að meta nú þegar valkostina og áætla kostnað við þá. Allar tafir geta skapað mikið vandamál og nú þegar hefur Vestmannaeyjabær fjármagn af sinni hálfu í verkefnið. Það sýnir líka þungann sem þetta verkefni kallar á að unnið sé af festu og einurð. Það er svigrúm í líkanstöð Siglingastofnunar að ganga til þessara verkefna og koma því á hreint hvað er fýsilegast, hvað það kostar og þá er hægt að hnýta upp verkefnið og engin ástæða til að hanga neitt yfir því nema síður sé, virðulegi forseti.

Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til samgöngunefndar Alþingis. Málið er samþykkt af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra og þurfum við ekki að ræða það frekar.