136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

42. mál
[18:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er bara venjulegur íslenskur alþýðupungur þannig að mig skiptir engu þó að hv. þm. Grétar Mar Jónsson ávarpi mig ekki rétt. Titlar og tog um þá skipta engu máli.

Ég hef aldrei setið í hafnarnefnd eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson en mér er það ógleymanlegt í fyrsta skipti sem ég kom til Vestmannaeyja og sigldi þangað inn á skipi sem mér fannst nokkuð stórt, lítill togari sem ég var þar á. Síðan hafa mér alltaf verið nokkuð hugleikin hafnarmál Vestmannaeyinga og ég geri mér grein fyrir því að þar er að finna líklega fræknustu sjósóknara á Íslandi.

Ég kem hér aðallega til að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu sem hv. þm. Árni Johnsen er 1. flutningsmaður að. Hv. þingmaður flutti mörg góð rök fyrir því að hefja ætti þessar tilraunir sem eru þá undirbúningur að því að byggja stórskipahöfn af því tagi sem hér var lýst. Það sem mér er kannski hugleiknast er sú staðreynd að ég held að slík höfn sé algerlega nauðsynleg til að skjóta styrkari stoðum undir möguleika Vestmannaeyinga á sviði ferðaþjónustu. Ég held að fram undan séu kaflaskipti, mjög góð, varðandi ferðaþjónustu í Eyjum. Það liggur fyrir að innan skamms verða komnar mjög góðar samgöngur upp á land. Sömuleiðis er það svo í Vestmannaeyjum að þar eru menn að leggja mjög traustar undirstöður að ýmsum nýjum seglum í ferðaþjónustu sem beinlínis varða eyjarnar. Þegar höfn af þessu tagi er komin getur hún tekið við þeirri nýju kynslóð skemmtiferðaskipa sem nú er að ryðja sér til rúms. Þau eru mjög stór og fara stækkandi og þau þurfa höfn af þessu tagi. Þá er það algerlega kjörið að skip sem kæmu og gætu notið þessarar nýju stórskipahafnar í Eyjum legðust þar upp að og afsettu þar alla sína farþega og sigldu síðan til Reykjavíkur fyrir Reykjanesið. Farþegarnir mundu nota dag eða tvo eða þrjá til að skoða eyjarnar, færu síðan upp á land og notuðu síðan hinn fræga gullna hring Suðurlands frá hinni leiðinni sem er öfug við þá hefðbundnu og fara til Reykjavíkur og hitta skipið þar og halda svo áfram leið sinni í kringum landið. Í dag er það þannig að það koma stór skemmtiferðaskip til Reykjavíkur, leggjast þar að og farþegarnir fara í rútum um Suðurlandið, náttúrlega aldrei til Eyja, og koma svo aftur til Reykjavíkur. Þarna mundu þeir sjá miklu meira af landinu en spara líka heilan dag með þessari aðferð þannig. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt til að skjóta stoðum undir ferðaiðnað í Vestmannaeyjum og ég er sannfærður um að hann á eftir að verða mjög blómlegur.

Stundum er talað um að í ferðaþjónustu þurfi að vera það sem menn kalla á íslensku „Vá!-effektin“. Þau áhrif skapast náttúrlega fyrst og fremst af hinni einstöku og stórbrotnu náttúrufegurð í Eyjum. Stundum finnst mér reyndar að Vestmannaeyingar, eins og hv. þm. Árni Johnsen sem þykir ákaflega vænt um Eyjarnar, séu svo hagvanir og heimavanir að þeir skynji kannski ekki alveg sjálfir, af því að þeir lifa við þessa stórbrotnu náttúru á hverjum degi, hvað þetta er mikilfenglegt. Hvergi í heiminum er hægt að sjá náttúru af þessu tagi og jafnstórbrotið landslag, eldfjallalandslag. Um þetta eru auðvitað Eyjamenn núna að reisa söfn eins og safnið sem er til þess að varða inn í framtíðina minningar og menjar t.d. um hin merku eldgos sem sem betur fer leiddu ekki til neinna hamfara á sínum tíma en var einhver stórbrotnasti atburðurinn í Íslandssögunni. Og sú staðreynd að það tókst á þeim tíma, með guðs hjálp, að koma í veg fyrir að nokkur slys yrðu á mönnum er líka eitt af því sem á skilið að menn reisi minnisvarða og söfn um. Það ásamt ýmsu öðru sem eyjunum tengjast, eins og hið einstaka fiskasafn sem þar er og ég tala nú ekki um fuglalífið sem þar er alveg einstakt. Allt þetta laðar ferðamenn til Eyja. Það hefur hins vegar verið svo, sökum þess hvernig samgöngum er háttað, að ferðamenn hafa ekki átt eins greiða för út í Eyjar og æskilegt væri. En með höfn af þessu tagi opnast algerlega nýir möguleikar á þessu sviði og það er sérstaklega út frá því sem ég sem ferðamálaráðherra kem hér upp og lýsi eindregnum stuðningi við þessa góðu tillögu.