136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka þau svör sem ég fékk frá hv. þm. Pétri Blöndal og verð að segja að ef ríkisstjórnin og fleiri hafa sömu markmið og þar komu fram erum við betur stödd en ég þorði að vona. Varðandi endurhverfanlegu viðskiptin lánar ríkið viðskiptabönkunum með milligöngu smærri fjármálafyrirtækja. Eftir að neyðarlögin voru sett er staðan einfaldlega sú að ríkið hefur í raun lánað ríkinu, heldur eftir peningunum í annarri hendi en krefur minna fjármálafyrirtækið um greiðslu með hinni. Það er sú ósanngirni sem við erum að reyna að koma í veg fyrir.

Ég fagna því að hv. þingmaður hafi lagt til að ríkið komi inn og skuldbreyti eða að erlendir kröfuhafar komi inn sem nýir hluthafar. En ég vil samt taka fram að það skiptir máli hvernig það er gert vegna þess að staðan er mismunandi hjá fjármálafyrirtækjunum. Stundum er staðan það vond og erfið að einhver þarf að koma inn sem nýr eigandi að hlutabréfum. En til að eyðileggja ekki eignarhlut tel ég að stundum sé nóg að skuldbreyta lánum.

Ég skil ekki ummæli hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann sé að lýsa því yfir að við þurfum á einn eða annan hátt að vinda ofan af eða endurskoða neyðarlögin sem við settum á fyrir um mánuði síðan. Ég hef óskað eftir utandagskrárumræðu um það efni. Ég tel mjög þarft og brýnt að þingið ræði mjög opinskátt hvernig þau lög hafa gagnast þjóðinni og hvort ekki sé kominn tími til að skoða hvort þau þurfi að laga.