136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni þann heiður að beina jómfrúrræðunni til mín og óska henni til hamingju með jómfrúrræðuna og býð hana velkomna til þings, eins og hún sagði sjálf, við mjög sérstakar aðstæður.

Það er athyglisvert að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna skuli vera miklir áhugamenn um að koma í gegn þeim hugmyndum sem eru í vinnslu hjá ríkisstjórninni og það er ánægjulegt til þess að vita. Það er kannski ekki rétt að vera að tala mikið um þá hugmynd sem hefur verið til skoðunar í þingflokkunum áður en málið kemur til þingsins en hins vegar hefur farið á flot hugmynd sem gengur út á það að reyna að liðka til fyrir sölu á bifreiðum úr landi, það er rétt. Það er reyndar ekkert bann á því að flytja bifreiðar úr landi heldur er þetta spurning um að það verði einhvers konar mótframlag ríkisins þegar og ef þessar bifreiðar eru fluttar úr landi.

Það sem hér hefur verið til umræðu og er í tengslum við þau neyðarlög og ástandið sem ríkir er að mikil ásókn hefur einmitt verið í að ríkissjóður komi að hinum ýmsu málum. Þetta er eitt þeirra og auðvitað þurfum við að forgangsraða í þeim efnum. Við höfum verið að horfa til þess að styðja við bakið á heimilunum, styðja við bakið á fyrirtækjunum, breyta atvinnuleysistryggingalögum og fleiri lögum til þess að koma til móts við heimilin. Þetta mál er í fínum farvegi hjá stjórnarflokkunum og ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því.