136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska Helgu Sigrúnu Harðardóttur til hamingju með jómfrúrræðuna og að vekja athygli á þessu máli því að það tengist í rauninni mjög mikið afkomu heimilanna. Það er þó að því gefnu að enn þá sé markaður fyrir notaða bíla erlendis en því miður er efnahagsástand á Íslandi ekki einsdæmi og þess vegna eru markaðir auðvitað víða orðnir slappir í kringum okkur líka varðandi notaða bíla.

Þetta er auðvitað, eins og hefur verið bent á í fjölmiðlum, eitt af þeim atriðum sem getur hjálpað mjög mikið til við að bæta hag heimilanna að því leytinu til að ef heimilin losa sig við annan bílinn getur þar verið um sparnað upp á tugi þúsunda og jafnvel 100–150 þúsund að ræða, jafnvel þótt ekki sé um mjög dýra bíla að ræða, kannski bíl sem kostar þrjár milljónir eða svo.

Þetta varðar líka svo margt, þetta varðar það að fólk geti greitt af lánum sínum og það eru ýmsir sem starfa í kringum fjármögnunarfyrirtæki sem eru mjög háð því að hægt sé að greiða af bílunum. Þetta snertir líka þá sem vinna í bílaumboðunum og kemur líka að bílaleigunum, þannig að þetta snertir mjög marga. Ef það er staðreynd að bílafloti okkar sé allt of stór, þ.e. að bílar séu fleiri en ökuskírteini í landinu, þá er hægt að bjarga miklum verðmætum þarna.

Hvað afkomu ríkissjóðs varðar álít ég að þó að við þurfum að greiða með þessu núna þá liðkum við fyrir bílamarkaðnum, það kemur fyrr öflugur innflutningur á nýjum bílum sem skilar þessu til baka til ríkissjóðs á tiltölulega mjög skömmum tíma. Ég held því að þetta sé góð (Forseti hringir.) fjárfesting, við fáum gjaldeyri, mikinn gjaldeyri út á þetta ef vel tekst til og endurgreiðslu á tiltölulega skömmum tíma.