136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom á fund fjárlaganefndar í morgun og gerði grein fyrir ráðstöfun fjármuna á grundvelli 33. gr. fjárreiðulaga, nr. 88/1997, en þar segir:

„Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“

Hæstv. ráðherra greindi frá því að þegar hefði verið greitt á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, stofnhlutafé upp á þrisvar sinnum 775 milljónir eða stofnhlutafélög upp á 2.325 milljónir, í hina þrjá nýju viðskiptabanka. Þá liggur fyrir mat fjármálaráðuneytisins um þörf á því að styrkja eigið fé hinna þriggja nýstofnuðu ríkisbanka um 385 milljarða kr. eigið fjárframlag, Nýja Landsbankans um 200 milljarða, Nýja Glitnis um 110 milljarða og Nýja Kaupþings um 75 milljarða.

Fjárlaganefnd var einnig greint frá því á grundvelli 33. gr. fjárreiðulaga sem ég hef áður vísað til, virðulegur forseti, að leitað verði heimilda á fjárveitingum í frumvarpi til fjáraukalaga ársins 2008 eða við 2. umr. fjárlagagerðar ársins 2009, falli skuldbindingarnar til á því ári. Ráðherra greindi einnig frá því að ekki hefðu verið teknar neinar ákvarðanir um að leggja sparisjóðum til fjármuni á grundvelli 2. gr. sömu laga nr. 125/2008.

Ég vil fyrir hönd fjárlaganefndar þingsins þakka hæstv. ráðherra fyrir þennan fund sem var upplýsandi og tel mér skylt að upplýsa þingið um niðurstöður fundarins.