136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

afnám tóbakssölu í fríhöfnum.

73. mál
[14:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta var nú með styttri svörum sem við höfum heyrt hér. Hæstv. ráðherra nýtti ekki allan tíma sinn en það er kannski í lagi þegar málflutningur hans er svona skýr. Greinilegt var að hæstv. ráðherra telur að ekki eigi að takmarka aðgengi að tóbaki í fríhöfninni.

En ég vil taka undir það sem hefur komið fram í umræðunni. Í heilbrigðisáætlunum okkar eru sett fram talsvert góð markmið varðandi reykingar. Það á að reyna að ná þeim niður og við tókum stórt skref þegar ákveðið var að hefta reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Það kostaði mikla baráttu hér innan dyra á þinginu. Ég man vel eftir því. En það tókst og sú er hér stendur var m.a. með slíkt mál á sínum tíma og fékk góðan stuðning frá þeim sem láta sig lýðheilsu varða. Þannig að ég tel að skoða eigi að halda áfram að takmarka aðgengi að tóbaki, m.a. í fríhöfninni. (Forseti hringir.)