136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

afnám tóbakssölu í fríhöfnum.

73. mál
[14:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir stutt og laggott og skýrt svar. Við Íslendingar höfum gengið mjög langt í stjórnvaldsaðgerðum til að sporna gegn tóbaksneyslu. Verð á sígarettum og þar með skattlagning er há. Þó er útsöluverð á sígarettum enn hærra hjá nágrannaþjóðum okkar eins og t.d. Bretum, Írum og Norðmönnum. Við höfum strangar reglur um sölu á sígarettum og um reykingar á almenningssvæðum og við verjum miklu fjármagni í áróður og upplýsingar og auglýsingabann á sígarettum er fyrir hendi. Nýlegar tölur sýna að þessar aðgerðir hafa borið árangur og samkvæmt tölum frá 2008 reykja um 17,6% þjóðarinnar á móti um 30% á árinu 1991 sem er minnkun um nærri helming á 17 árum.

Vitað er að hátt útsöluverð á tóbaki hefur þau áhrif að notkun þess minnkar og í ályktun sinni lagði Læknafélagið m.a. til að hækka verð á tóbaki um 10% á ári að raungildi næstu árin. Að innan fimm ára verði sala á tóbaki eingöngu í sérstökum tóbaksverslunum og að tíu árum liðnum verði tóbak eingöngu afgreitt gegn lyfseðli í apóteki og þá eingöngu við sjúkdómsgreiningunni tóbaksfíkn eftir að meðferðarúrræði hafi verið reynd og brugðist. Má því segja að læknar vilji mjög róttækar aðgerðir til að sporna gegn tóbaksfíkn. Rökin fyrir að hætta sölu tóbaks í fríhafnarverslunum eru fyrst og fremst að það væri hluti af tóbaksvörnum og heilsustefnu hér í landinu.

Vissulega munu ferðalangar í einhverjum mæli flytja verslun sína til fríhafna erlendis en ég bendi aftur á að verð á tóbaki í fríhöfnum erlendis er mun hærra en hér á landi og mjög nálægt því að vera eins og útsöluverð hér innan lands.

Ef við viljum taka á þessum þætti sem er framboð á mjög ódýru tóbaki í fríhöfn á leið til landsins má hugsa sér að hækka verðið. Minnka leyfilegt innflutt magn eða hætta verslun með tóbak. Að mínu mati á að taka þetta skref. Rökin eru heilsufræðilegs eðlis og það er þjóðhagslega hagkvæmt þegar litið er til kostnaðar samfélagsins af reykingum.