136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skal hafa athugasemdina stutta. Tilefni er hins vegar til að gera mjög langa athugasemd við þetta. Við Íslendingar stöndum nú í því að reyna að verja það sem varið verður í samfélagi okkar, þar á meðal Íbúðalánasjóð. Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hvað stjórnvöld hefðu gert í þeim efnum og þá hvort kæra sem reist hefur verið á hendur Íbúðalánasjóði af hálfu fjármálafyrirtækja sem nú eru komin í ríkiseign eða undir handarjaðar almannavaldsins hefði verið dregin til baka.

Hæstv. ráðherra kvaddi sér hljóðs og vitnaði í miklar reglugerðir fram og til baka um hvað honum væri heimilt að gera. Hvað honum væri kleift að gera og hvað ekki kleift.

Nú ríkja allt aðrar aðstæður á Íslandi en hafa gert lengi. Nú látum við reyna á öll möguleg úrræði. Þess vegna segi ég að í stað þess að lesa (Forseti hringir.) allar reglugerðirnar og klóra upp einhverja slíka punkta frá Evrópusambandinu þá ber íslenskum stjórnvöldum að reyna einu sinni að standa í fæturna og láta á það reyna, (Forseti hringir.) koma með kröfu og ósk um að þetta verði tekið út úr ferlinu. Öll þessi kerfi, (Forseti hringir.) líka í Evrópusambandinu, hljóta að verða til uppstokkunar og endurmats og nú eiga íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) einu sinni að reyna að standa örlítið í fæturna.