136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:22]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú krafa hefur verið upp í nokkurn tíma af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að gerðar verði tilteknar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs þannig að hún samræmist betur ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Byggir sú aðstaða stofnunarinnar m.a. að dómi EFTA-dómstólsins frá því í apríl 2006 þar sem dómurinn benti m.a. á að í reglum um almenn lán Íbúðalánasjóðs skorti takmörkun á því til hve dýrra eða stórra íbúða heimilt væri að lána til. Fyrir vikið væri sú almannaþjónusta sem Íbúðalánasjóði væri ætlað að sinna ekki nægilega skýrt afmörkuð í lögum með hliðsjón af umræddum ríkisstyrkjareglum.

Áform ríkisstjórnarinnar í samræmi við framangreint hafa beinst að því að skilgreina og afmarka lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig að hún samræmist umræddum ríkisstyrkjareglum. Íslensk stjórnvöld hafa í því sambandi haldið því fram við ESA að allur meginþorri af lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs geti talist þjónusta í almannaþágu í skilningi EES-samningsins og sé þar með innan leyfilegra marka samkvæmt samningnum. Hvar mörkin liggja í þessu efni er hins vegar óljóst á þessari stundu og hafa íslensk stjórnvöld unnið að því að útfæra mögulegar niðurstöður í því efni í samráði við ESA.

Hins vegar er ljóst að þær afar sérstöku kringumstæður sem nú ríkja hér á landi og víða um heim hafa áhrif á mál ESA gagnvart íslenskum stjórnvöldum og má í raun segja að það sé út af borðinu í bili að minnsta kosti. Er óhjákvæmilegt að málinu sé frestað meðan verið er að endurreisa og endurskipuleggja fjármálakerfið. Hefur fulltrúum ESA verið gerð grein fyrir þeirri stöðu og hafa þeir sýnt henni skilning. Ég vil hins vegar undirstrika að íslensk stjórnvöld geta ekki meinað ESA með formlegum hætti að skoða málið áfram né að farið fram á það með formlegum hætti að skoðun af hálfu ESA verði formlega stöðvuð. Það hef ég sérstaklega kynnt mér enda kom ósk um það í félags- og trygginganefnd fyrir skömmu. ESA ber á hverjum tíma að fylgjast með framkvæmd einstakra ríkja og starfsemi stofnana og fyrirtækja með ríkisábyrgð. Það er hins vegar öllum ljóst að málið er lagt til hliðar þar sem verkefni dagsins eru af allt öðrum toga og lúta m.a. að því að endurreisa og endurskipuleggja fjármálakerfið í landinu í heild sinni. Þegar kemur að því að taka afstöðu til þessara mála á nýjan leik mun ég sem fyrr standa vörð um meginstarfsemi Íbúðalánasjóðs sem er að veita almenningi hér á landi húsnæðislán á viðunandi kjörum. Öruggt og aðgengilegt húsnæði er einn af hornsteinum velferðarkerfisins hér á landi og út frá því mun ég nálgast það viðfangsefni sem hér um ræðir.

Ég hef margoft sagt það í ræðustól Alþingis eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra að ég mundi standa vörð um Íbúðalánasjóð. Ég er í hópi þeirra sem eru talsmenn fyrir því, m.a. hv. fyrirspyrjandi, að standa vörð um Íbúðalánasjóð og það mun ég gera. Ég tel að heiti fyrirspurnarinnar sé einfaldlega rangt vegna þess að þar stendur: Hyggst ríkisstjórnin draga til baka áform sín um uppskiptingu og hlutafélagavæðingu Íbúðalánasjóðs? Það er hægt að aðskilja starfsemi Íbúðalánasjóðs í félagsleg og almenn lán eins og krafan hefur verið uppi um án þess að hlutafélagavæða sjóðinn þannig að það hefur ekkert komið fram af minni hálfu í þessu efni frá því að málið kom til umræðu að hlutafélagavæða ætti sjóðinn jafnvel þó að fara þyrfti út í það að aðskilja almenn félagsleg lán.