136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Þessi viðbrögð ráðherra, hvort heldur sem hæstv. félagsmálaráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra, hljóta að valda okkur miklum ugg. Hvers vegna á ekki að koma með pólitíska, afdráttarlausa yfirlýsingu um að öll áform um breytingar á rekstrarformi Íbúðalánasjóðs, eins og það var kallað, þ.e. uppskiptum hans, verði dregin til baka? Hvers vegna er ekki hægt að koma með afdráttarlausa yfirlýsingu um að kæra íslensku viðskiptabankana sem nú heyra undir ríkið á hendur Íbúðalánasjóði verði dregin til baka?

Menn bera við einhverjum ESA-reglum. Var það samkvæmt einhverjum ESA-reglum að búið er að ríkisvæða alla bankana? Var ESA spurt að því? Er það ekki fleira sem við gerum núna sem ESA er ekki spurt um? Eða er búið að senda erindi til ESA um hvort ríkið hafi mátt ríkisvæða bankana? Þýðir það þá ekki nánari skoðun sem tekur þrjú ár eða meira?

Svona málflutningur af hálfu ráðherra ríkisstjórnar er forkastanlegur við þær aðstæður sem við búum nú, að þylja hér upp einhverjar reglugerðir um ESA en brjóta þær nánast allar samtímis eins og hvað varðar bankana. Og svo segir ráðherra: Þetta fer á ís í bili, þessu hefur verið frestað. Síðan þegar aðstæður breytast muni ESA-dómstóllinn kannski taka málið aftur upp.

Ég vil fá að sjá bréf frá hæstv. félagsmálaráðherra þar sem hún krefst þess og leggur fram þá kröfu að kæra viðskiptabankanna á hendur Íbúðalánasjóði verði dregin til baka formlega og skriflega. (BJJ: Við munum styðja það.) (Forseti hringir.)