136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir smærri fjármálafyrirtækja.

[10:45]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina um þetta brýna mál. Það undirstrikar fyrst og fremst það sem ég sagði fyrir viku síðan að hér er um að ræða viðskiptalega ákvörðun ríkisbankanna sjálfra. Ríkið veitti enga fjármuni til peningamarkaðssjóðanna. Samkvæmt upplýsingum sem ég kallaði eftir í síðustu viku um þessa ákvörðun bankanna kom einfaldlega fram að slík viðskipti fóru fram á viðskiptalegum forsendum á grundvelli sjálfstæðs mats óháðs aðila sem í þessu tilfelli var KPMG um verðgildi bréfanna.

Það var niðurstaða málsins og sjóðunum var ekki lagt til neitt ríkisfé enda hefði það fyrst vakið upp spurningar um mismunun á milli sjóða ef ríkið hefði talið sig þurfa að gera það. Fulltrúar annarra peningamarkaðssjóða hafa fundað — nú veit ég ekki hvort það er frá öllum fyrirtækjunum sem eru að minnsta kosti fimm eða sex, en vonandi — með fulltrúum ráðuneytanna og þar hafa verið kynntar óskir þessara aðila um að eiga sambærileg viðskipti með bréf þeirra í sjóðum viðskiptabankanna. Öllum slíkum hugmyndum er vísað þaðan til bankanna sjálfra sem verða að taka þær út frá viðskiptalegum forsendum.

Fjármálaeftirlitið beindi á sínum tíma tilmælum til ríkisbankanna þriggja um upplausn sjóðanna og að samræmis skyldi gætt einfaldlega af því að boðvald þeirra nær til þessara þriggja banka en ekki annarra fjármálafyrirtækja — við getum sagt sem betur fer — sem enn þá eru sjálfstætt starfandi. Skiptir náttúrlega mjög miklu máli að hagsmuna þeirra sé gætt til hins ýtrasta enda hafa menn nú, eins og fram hefur komið, verið að vinna í því í nokkrar vikur og leitað leiða til að styrkja stöðu sparisjóðanna og þess kerfis alls þannig að það hrynji ekki eins og hitt fjármálakerfið okkar. Mér hafa ekki verið gefnar upplýsingar um (Forseti hringir.) annað en að þessar viðræður standi enn þá yfir.