136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

afstaða iðnaðarráðherra til heræfinga Breta.

[11:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Af langri veru hér í sölum Alþingis er ég farinn að þekkja innvolsið í Framsóknarflokknum. Það kemur mér þess vegna ekkert á óvart þó að hv. þingmenn Framsóknarflokksins komi hingað og tali um gaspur og léttúð þegar um það er að ræða að fara að sannfæringu sinni. Þetta er mín sannfæring. Hún hefur komið áður fram og það er ljóst að ég sem starfandi utanríkisráðherra gerði það sem mér bar til þess að þessarar sannfæringar gætti í starfi mínu, þ.e. þessum viðhorfum mínum var komið til Breta. Að minnsta kosti bað ég um það.

Ég sagði jafnframt að ef aðstæður breyttust og sú staða kæmi upp að sátt næðist í þeirri deilu sem við eigum í við Breta og ef þeir mundu láta af þeim skelfilega verknaði sem þeir sýndu okkur, að setja okkur á lista með Al Kaída og hermdarverkasamtökum í heiminum og frysta í krafti þeirra laga íslenskar eignir, þá mundi sú afstaða breytast. Að öðru leyti er það ljóst að þetta er mín skoðun og ég segi eins og Marteinn Lúter: Hér stend ég og get ekki annað. Mér er alveg sama hvað Framsóknarflokknum finnst um það.

Það er bara þannig að þessi karl sem hér stendur fer eftir sannfæringu sinni, öfugt við það sem þingmenn Framsóknarflokksins gera. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skal svo koma hingað og lýsa því yfir, ef það er stefna Framsóknarflokksins, að hún vilji á þessari stundu, og telji það rétt og verjanlegt, fá Breta til loftrýmisgæslunnar.

Ég vil líka bæta því við sem iðnaðarráðherra og fyrrverandi starfandi utanríkisráðherra — og sama er mér hvaða titlum hv. þingmaður togar mig með — að ég tel einfaldlega að sem fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu, sem skipuleggur þessa gæslu, eigum við það skilið að þeir taki tillit til Íslendinga í þessari deilu þegar þeir eru að skipa hingað sveitum.