136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

afstaða iðnaðarráðherra til heræfinga Breta.

[11:07]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Til þess að allt sé skýrt vil ég að það komi hér fram að ég óskaði eftir því á meðan ég gegndi þessu starfi að þessum skilaboðum yrði komið til Breta í gegnum ráðuneytið. Ég gerði það ekki sjálfur þó að ég hafi átt eina þrjá eða fjóra mjög hreinskilnislega fundi með sendiherra Breta sem vörðuðu deilu okkar og þeirra.

Innan Samfylkingar gengur enginn gruflandi um afstöðu mína í þessu máli. Hún er sú, eins og ég hef sagt, að ég tel mjög óæskilegt og að það mundi særa mjög marga — ég veit það af þeim bréfum og undirtektum sem ég hef fengið við þessu — ef Bretar verða kallaðir hingað til þess að verja okkur á þessari viðkvæmu stundu í samskiptum okkar og þeirra. Ég hef hins vegar líka sagt að ef deilan leysist gegni öðru máli. Hugsanlega leysist hún. Við skulum vona það.

En hver er afstaða Framsóknarflokksins í þessu máli? Guðni Ágústsson hefur lýst sömu afstöðu og ég og hér kemur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, keppinautur hans um formennsku í (Forseti hringir.) Framsóknarflokknum, og hjólar í formanninn með allt annarri afstöðu. Hvað er að gerast í þessum flokki? Þingmenn segja af sér. Þeir koma hingað (Forseti hringir.) og ráðast á formann sinn fjarstaddan. Ég tek til varnar fyrir hv. þm. Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Hann á ekki skilið þessa aðför af hálfu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur.