136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[11:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því hversu skjótt hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur gengið til verka. Og sérstaklega vil ég líka fagna því að nefndin er sammála um að láta þetta verða afturvirkt með þeim hætti að það frumvarp sem hér er rætt verði að lögum frá og með 1. nóvember síðastliðnum. Ég átti þess því miður ekki kost að vera hér við upphaf 2. umr. en á þó kannski ekki von á að það atriði sem mig langar til að spyrja um hafi komið þar til umræðu.

Við 1. umr. vakti ég athygli á að það er töluvert misræmi í lögunum, í skilyrðum laganna annars vegar hvað varðar réttinn til atvinnuleysisbóta. Þar segir að menn hafi hann óbreyttan á þessu tímabili hafi hinn tryggði misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Það er 1. gr. frumvarpsins. 2. gr. frumvarpsins fjallar um Ábyrgðasjóð launa ef til gjaldþrots kemur en þá segir að útgreiðslan eða krafan í Ábyrgðasjóð launa verði ekki skert í samræmi við skert starfshlutfall á tilteknu tímabili. Frá 1. október 2008 til og með 31. desember 2009 gildi þetta um kröfur launamanna sem minnka starfshlutfall sitt að kröfu vinnuveitanda vegna samdráttar í starfsemi o.s.frv. Þarna er að mínu viti verið að gera kröfu til sönnunarbyrði sem getur verið mjög erfitt fyrir launamann að uppfylla þegar út í gjaldþrotaskiptin er komið.

Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu við 1. umr. og hún sagðist mundu láta athuga hverju þetta misræmi sætti. Svör við því er ekki að finna í nefndaráliti hv. félags- og tryggingamálanefndar heldur er því miður þessu atriði snúið nákvæmlega á hvolf í 2. mgr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði og eru í því lagðar til breytingar sem miða að því að greiða hærri atvinnuleysisbætur“ — hér er vísað til 1. gr. — „til launþega sem þarf að kröfu vinnuveitanda að lækka starfshlutfall sitt.“

Þetta er ekki svo. Í 1. gr. segir þvert á móti að það sé bundið því skilyrði að hinn tryggði hafi misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Þar er ekkert minnst á kröfu vinnuveitanda.

En áfram til nefndarálitsins. Í framhaldinu segir, með leyfi forseta:

„Þá er frumvarpinu einnig ætlað að tryggja þeim launþegum sem hafa þurft að lækka starfshlutfall sitt vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði bætur úr Ábyrgðasjóði launa miðað við fullt starfshlutfall ef til gjaldþrots vinnuveitanda kemur.“

Mér skilst að málið fari aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og óska ég hér með eftir því að þetta atriði verði skoðað því að ég tel einsýnt, og benti á það strax við 1. umr., að breyta þurfi síðustu málsgrein 2. gr. þessara laga til samræmis. Og það bætir þetta nú ekki þegar nefndarálitið snýr því alveg á haus, hæstv. forseti, þannig að í stað þess að þarna standi „að kröfu vinnuveitanda“ verði notað sama orðalag og er í 1. gr. að ákvæði þetta gildi um kröfur launamanna sem misst hafa starf sitt að hluta á tímabilinu 1. október 2008 til og með 31. desember 2009 vegna samdráttar í starfsemi o.s.frv. Þar með er launþegi sem fyrst lendir í skertu starfshlutfalli hjá vinnuveitanda sem er að reyna að halda starfseminni gangandi en ræður ekki við það og lendir í gjaldþroti, þar með væri allt í einu sú krafa á launþegann eftir á, þegar kemur til þess að búið á ekki fyrir þessum launum, að sanna að það hafi verið að kröfu vinnuveitanda. Það kann vel að vera að hv. formaður geti skýrt þetta betur. En þetta er erindi mitt í ræðustólinn.

Ég fagna því að frumvarpið nái svona skjótt fram að ganga. Það er auðvitað alveg ljóst að ef menn eru sammála um að láta gildistímann vera frá 1. nóvember síðastliðnum þá liggur ekki lífið á að afgreiða málið út úr þinginu og ætti þess vegna vera hægt að skoða þetta atriði betur ef hv. formaður er mér sammála um það.

Ég vonast til að þar sem segir í nefndarálitinu að það muni verða skoðað betur og leitað leiða til að auðvelda þeim sem stunda nám sem ekki er lánshæft í þessari aðstöðu og eru að missa vinnuna, að leitað verði leiða til að auðvelda atvinnulausum að stunda nám, ég vona að það verði unnið á vettvangi þingsins en ekki eingöngu í ráðuneytinu.