136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:41]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra, Árna M. Mathiesen, fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi. Kannski má segja sem svo að þær aðstæður sem við búum við í fjármálum almennt, ríkisfjármálum og öðrum fjármálum, kalli á frumvarp sem þetta. Hugsanlega má segja að með hliðsjón af lögum nr. 125/2008 sé þetta frumvarp hálfgert neyðarlagafrumvarp eða afleiðing af því ástandi sem við búum við. Rétt er að ítreka það hér fyrir þá sem hlusta, virðulegi forseti, að frumvarpið felur í sér heimild til að stimpilgjald sé undanþegið vegna skilmálabreytinga á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga eða þá nýjum skuldabréfum sem gefin eru út til uppgreiðslu vanskila á fasteignaveðskuldabréfum sömu einstaklinga.

Með öðrum orðum er hugmyndin sú, virðulegi forseti, að viðkomandi aðilar sem þurfa að fara fram með skilmálabreytingu, eða þurfa að fá ný veðskuldabréf vegna þess að þeir eru í erfiðleikum vegna vanskila, eru undanþegnir stimpilgjaldinu þannig að það liggi ljóst fyrir. Einnig þarf að liggja ljóst fyrir að um tímabundna aðgerð er að ræða. Lögin kveða á um að þetta taki gildi frá og með þeim tíma sem Alþingi samþykkir og til áramóta.

Eins og hæstv. fjármálaráðherra kom að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun, í erindi sem hann flutti þar, eru tímarnir sem við lifum í dag miklir óvissutímar og breytilegir og vel má vera að þessi heimild þyrfti að vera til lengri tíma. Ég get talað fyrir sjálfan mig og sagt að ef lengja þarf þennan tíma fram á næsta ár, hugsanlega vegna þess hvernig háttar á mörkuðum og í tæknilegri útfærslu á þessu í bankakerfinu eða hjá lífeyrissjóðum, þá sé það hægt. En lagaákvæðin í frumvarpinu eru skýr um að þetta gildi til áramóta sem mun auðvitað þýða að fjölmargir munu á næstu dögum nýta sér þetta í samstarfi við banka, lífeyrissjóði eða aðra.

Kostnaðarmat fylgir frumvarpinu og get ég tekið undir það að miðað við þær stóru tölur sem við erum að vinna með í dag, sem við teljum hugsanlega í hundruðum milljarða, leiðir þetta ekki til neinna beinna útgjalda fyrir ríkissjóð. En ljóst er að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi munu minnka eitthvað verði frumvarpið að lögum. Þær eru hins vegar óverulegar í heildinni og einnig er tekið fram að í forsendum tekjuáætlunar fjárlaga fyrir árið 2008 var ekki reiknað með sérstökum tekjum af stimpilgjaldi vegna skilmálabreytinga við þær aðstæður sem nú hafa skapast. Kannski má segja sem svo að við hefðum annars þurft að leiðrétta það í fjáraukalögum þessa árs því að þetta hefðu verið tekjur sem féllu til á þessu ári. Ég vil því ítreka það, virðulegi forseti, við þingheim að hraða frumvarpinu í gegnum þingið og í gegnum nefndir. Ég tek undir það sem sagt hefur verið í andsvörum: Það er eðlilegt að þær upplýsingar sem óskað var eftir komi til þingnefnda og fái umræðu þar.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, taka undir það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt: Þetta er frumvarp sem margir hafa beðið eftir og ætti þingheimur þar af leiðandi að geta sameinast um það.