136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Sveitarfélögin í landinu gegna ríku samfélagslegu hlutverki. Þau annast stóran hluta opinberrar þjónustu í þágu velferðar og menntunar á Íslandi. Þau eru hluti hins opinbera og gegna þannig gríðarmiklu hlutverki í þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir samfélagið. Sveitarfélögin standa íbúum sínum næst, sinna börnunum, menntuninni og velferðinni.

Sveitarfélögin hafa nú um langt skeið átt í miklum örðugleikum vegna veikra tekjustofna og mikilla verkefna. Er nú svo komið að sum þeirra eiga erfitt með að sinna lögbundnum hluta grunnþjónustunnar og sum hafa raunar búið við kreppu undanfarin ár vegna þenslu og ójafnvægis. Nú dynur kreppan einnig yfir sveitarfélögin á þenslusvæðum.

Samkvæmt nýrri spá Seðlabanka Íslands munu tekjur hins opinbera lækka um 15,5% milli áranna 2008 og 2009. Á sama tíma er því spáð að útgjöld hins opinbera muni aukast verulega. Enda þótt gert sé ráð fyrir að kjarasamningar verði almennt framlengdir óbreyttir er þess að geta að sveitarfélögin eiga ósamið við alla starfsmenn sína að frátöldum kennurum, um 14 þúsund manns. Framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga munu dragast verulega saman og ljóst er að spáin um lækkun skatttekna ríkissjóðs mun bitna verulega á tekjum Jöfnunarsjóðs vegna tenginga þeirra við skatttekjur. Þau sveitarfélög sem hvað háðust eru tekjum úr Jöfnunarsjóði verða því fyrir miklum skakkaföllum. Í mörgum sveitarfélögum nema framlög Jöfnunarsjóðs á bilinu 30–50% af heildartekjum sveitarfélaganna og aukaframlagið upp á 1.400 milljónir eitt og sér vegur víða um 7–10% og allt upp í 20% af tekjum sveitarfélaga. Því til viðbótar munu útsvarstekjur þeirra lækka um 10%, að talið er, og tekjur af fasteignasköttum munu minnka eitthvað ef fasteignamat lækkar.

Á næstu mánuðum og missirum mun ástand atvinnumála versna mikið og atvinnuleysi eykst hratt til loka næsta árs. Þá er gert ráð fyrir að það verði um 10% og á árinu 2010 verður það áfram mjög mikið. Við slíkar aðstæður er hlutverk sveitarfélaganna geysimikið og brýnt. Á þeim brennur vandi fjölskyldna og atvinnulífs í návígi. Þau munu mörg hver heyja baráttu fyrir tilvist sinni, fyrir mannsæmandi samfélagi og félagslegri samstöðu íbúanna. Um leið og tekjur þeirra dragast umtalsvert saman aukast útgjöldin, m.a. til fjárhagsaðstoðar, húsaleigubóta, félagslegrar ráðgjafar og stuðningsaðgerða af ýmsum toga. Enn fremur má búast við að mörg sveitarfélög bregðist við vaxandi fjárhagserfiðleikum fjölskyldna með aukinni þátttöku í kostnaði vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundastarfs og þess háttar. Sveitarfélög munu eins og ríkið þurfa að leggja aukið fjármagn í fjárfestingu og framkvæmdir til að stuðla að auknum umsvifum í atvinnulífi og draga þannig úr áhrifum samdráttarins á atvinnustigið.

Nú stendur yfir fjármálaráðstefna sveitarfélaga. Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur bent þar á að áætlaður halli sveitarfélaganna á árinu 2009 er um 30 milljarðar kr. að teknu tilliti til fjármagnsliða en upphafleg áætlun ársins 2008, sem nú er reyndar gerbreytt, gerði ráð fyrir um 30 milljarða afgangi. Viðsnúningurinn er því himinhrópandi og framkvæmdastjóri sambandsins kallar þetta hrun í fjárhag sveitarfélaganna. Þar kom sömuleiðis fram að nú er spáð samdrætti í tekjum jöfnunarsjóðs á næsta ári um 13% miðað við að 1.400 millj. kr. aukaframlagið skili sér. En miðað við málflutning ráðherra á fjármálaráðstefnunni í dag bendir fátt til að svo verði.

Það er mikill uggur í sveitarstjórnafólki um allt land. Miðað við þær forsendur sem nú liggja til grundvallar að því er varðar tekjur sveitarfélaga og skyldur þeirra til að veita þjónustu er dagljóst að þau munu ekki geta risið undir skuldbindingum sínum án verulegra og róttækra aðgerða. Skuldaaukning er fyrirsjáanleg og voru sveitarfélögin almennt talsvert skuldsett fyrir en í árslok 2007 námu brúttóskuldir þeirra um 136 milljörðum kr. Við þeim aðstæðum er óhjákvæmilegt að bregðast og standa þau spjót á ríkisstjórninni.

Það var kvartað yfir því í þessum sal í haust og einnig af hálfu sveitarfélaganna sjálfra að samráð við sveitarfélögin hafi verið mjög takmarkað og að lítið sem ekkert hafi komið frá stjórnvöldum sem eykur sveitarfélögunum bjartsýni um að tekið verði á vanda þeirra. Þess vegna tel ég brýnt að fá hér á Alþingi fram viðbrögð hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála og svör við eftirfarandi spurningum:

1. Til hvaða ráðstafana munu stjórnvöld grípa til að tryggja að sveitarfélögin hafi bolmagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

2. Hvernig verður Jöfnunarsjóði sveitarfélaga gert kleift að styðja sérstaklega þau sveitarfélög sem hvað verst standa?

3. Mun ríkið ábyrgjast eða vera bakhjarl sveitarfélaganna vegna væntanlegs hallareksturs og aukinnar skuldsetningar?

4. Verður tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga breytt til að auka hlutdeild sveitarfélaganna í skatttekjum og/eða munu sveitarfélögin fá ríkari heimildir til tekjuöflunar?

Ég vænti þess, forseti, að hæstv. ráðherra gefi hér skýr svör og að hann hafi í farteskinu aðgerðaáætlun í samvinnu við sveitarfélögin sem tekur á vanda þeirra og tryggir stöðu þeirra og ríkar skyldur í samfélaginu.