136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:15]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að hefja þessa umræðu en eftir að hafa setið fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun og skoðað þá framtíð sem sveitarstjórnarmenn sjá fyrir sér er ljóst að horfur eru ekki góðar. Þar voru þó langflestir sammála um að það væri þrennt sem bæri að hafa að leiðarljósi í þeirri vinnu sem fram undan er: Það eru samráð, samstarf og samstaða. Það væri óskandi að þau gildi væru viðhöfð á fleiri stöðum, ekki síst í þinginu.

Þrátt fyrir yfirlýsingar frá forustumönnum Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninga um samvinnu og samráð ríkisstjórnarinnar hefur lítið borið á samráði þangað til í morgun að hæstv. fjármálaráðherra taldi að samstaða allra væri nauðsynleg á þessum tímum. Ber að fagna því sérstaklega að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sjái ástæðu til að ræða við sveitarfélögin þótt vissulega líti út fyrir að neyðin ein hafi rekið menn til þess.

Hið jákvæða er að víða hafa sveitarfélög haldið vel á spöðunum og eru því betur í stakk búin að takast á við erfiðleika. Þau eru jafnframt farin að gera ráðstafanir í samvinnu og samráði við íbúa svæðisins. En önnur sveitarfélög standa verr og dæmi eru um að ýmsar mjólkurkýr og allar eignir sveitarfélagsins hafi verið seldar og eru nú leigðar til baka á myntkörfuprísum og auðvitað er búið að eyða peningunum.

En sveitarstjórnarmenn hafa víðar tekið höndum saman og þá á ég við meiri og minni hluta. Þeir hafa slíðrað pólitísk sverð og leita nú allra leiða til að viðhalda grunnþjónustunni, koma í veg fyrir uppsagnir og styðja við atvinnuskapandi verkefni. Ef yfirskrift umræðunnar um hlutverk og horfur sveitarfélaga á að hafa eitthvert gildi er ljóst að tvennt þarf að tryggja: Í fyrsta lagi að róa lífróður fyrir tekjujöfnunarframlaginu því að ekkert annað en gjaldþrot blasir við þeim sem ekki eiga minnstu tutlu utan á beinunum, þar sem búið er að skafa allt í burtu. Í annan stað blossa nú upp umræður um sameiningu sveitarfélaga til að auka hagkvæmni og skilvirkni. Mér skilst að talan 1000 hafi verið nefnd í því samhengi. Ég skora á hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála að taka þar hliðsjón af félagslegri stöðu og landafræði en ekki falla í þá gryfju (Forseti hringir.) að horfa eingöngu á súlurit og tölur.