136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:20]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það eru margar fjölskyldur í verulegri kreppu núna og sveitarfélögin í landinu þurfa án efa að auka þær skuldbindingar sem þau taka á sig og fara í ýmsar kostnaðarsamar framkvæmdir til að hjálpa því fólkinu sem komið er í verulega kreppu. Farið er að loka fyrir rafmagn hjá fólki og sumir eru nánast komnir á vergang. Búið er að bjóða upp húsnæðið hjá fólki og miklar hörmungar eru fram undan. Þær eiga bara eftir að aukast á næstu mánuðum og það gefur augaleið að þá mun reyna á sveitarfélögin.

Þess vegna má segja að þegar sveitarfélögin standa frammi fyrir því að á síðasta ári var 30 milljarða hallarekstur á sveitarfélögunum gefur það augaleið að breyta þarf tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er hlutur sem lengi hefur verið þörf á að skoða og endurskoða en það hefur ekki verið gert. Á síðustu árum hafa menn breytt sér úr einstaklingum í hlutafélög og þess vegna hafa þeir ekki greitt útsvarstekjur til sveitarfélaga heldur svokallaðan fjármagnstekjuskatt. Þar af leiðandi hefur lítið komið til sveitarfélaganna af útsvarstekjum. Síðan eru ýmsar byrðar á sveitarfélögum eins og hallarekstur á höfnum hringinn í kringum landið sem eru í mjög slæmu ástandi. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verður að koma (Forseti hringir.) og bjarga mörgum sveitarfélögum og þess vegna er aukaframlag í þann sjóð (Forseti hringir.) nauðsynlegt.