136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[17:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er farinn að skilja hvers vegna fólk safnast saman á Austurvelli á hverjum laugardegi (Gripið fram í.) og hvetur til að gengið verði til kosninga strax. Sjálfstæðisflokkurinn, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur þetta í flimtingum. Þetta eru kröfur sem fara vaxandi í þjóðfélaginu. Hvers vegna? Vegna þess að ríkisstjórnin er ekki starfi sínu vaxin. Við fengum sönnun þess í málflutningi frá hv. þm., varaformanni Samfylkingarinnar, hér fyrir stundu. Hv. þm. Atli Gíslason mun gera grein fyrir afstöðu sinni og okkar til málsins á faglegum forsendum.

Hæstv. forseti. Það er ekki Alþingi bjóðandi að framkvæmdarvaldið komi fram við okkur með þessum hætti. Ég mælist mjög eindregið til þess að málinu verði skotið á frest og fái faglega og lýðræðislega umfjöllun. Hér er um að ræða álitamál sem varðar stjórnarskrá landsins og (Forseti hringir.) hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við krefjumst þess að það fái betri og vandaðri umfjöllun en þetta. Breytingartillögurnar komu fram í þinginu klukkan þrjú í dag. Nú er klukkan að verða sex og þrír klukkutímar liðnir. En Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn ætla að þröngva þessu í gegn með þessum hætti. Þetta er ólýðræðislegt, ófaglegt og ekki Alþingi sæmandi.