136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[17:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum hófst hér umræða sem hv. stjórnarþingmenn Guðfinna Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir tóku þátt í og fordæmdu þau vinnubrögð sem væru í þinginu í ljósi ástandsins úti í þjóðfélaginu. Þeir sem voru með mál á dagskrá fengu yfir sig skammardembu.

Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir hefur nú haft tækifæri til að sýna önnur vinnubrögð sem starfandi formaður í viðskiptanefnd undanfarna viku, og dapurlegt er að þurfa að segja að verri vinnubrögð hef ég ekki horft upp á, því að þetta er tvíþætt mál, annars vegar spurning um faglega afstöðu og hins vegar um vinnulag. Ég segi ykkur eins og er, hv. þingmenn og forseti, að ég fyrirverð mig fyrir þessi vinnubrögð og tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég skil vel að fólk safnist saman fyrir (Forseti hringir.) utan húsið. Þessi ríkisstjórn er ekki mönnum bjóðandi.