136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[18:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Breytingartillögunum var dreift síðdegis í dag og eðlilega hafa þingmenn, hvorki þeir sem eru í salnum né aðrir, haft tóm til að skoða þær rækilega. Ég skil orð hv. þingmanns þó þannig að frestdagur til riftunar sé ekki lengur hugsaður sem sá dagur sem skilanefndirnar voru skipaðar eins og var í upphaflegu frumvarpi heldur sá dagur sem lögin taka gildi þannig að tímabilið frá og með gildistöku laganna 12 mánuði aftur í tímann sé riftunarhæft ef til gjaldþrotaskipta kemur sem ég held að allir hljóti að sjá að er nauðsynlegt í gjaldþrota fyrirtækjum. Ég hélt að það væri málið.

Hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan að með þeim lagabreytingum sem hafa verið kynntar til sögunnar í dag sé brotið gegn lögvörðum rétti manna til að höfða dómsmál. Ég ætla að leyfa mér að nota tækifærið og spyrja hinn löglærða formann hv. allsherjarnefndar hvort hann sé sammála því að þar sé farið út á hálan ís.