136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[19:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um leið og ég tek undir þau orð hv. þm. Atla Gíslasonar að mikilvægt sé að huga að hagsmunum heimilanna í landinu og vinna að ráðstöfunum til að tryggja að höggið, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna þeirra miklu áfalla sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu, verði eins vægt og hægt er og aðstæður heimilanna til að bregðast við því bættar eins og kostur er þá vil ég mótmæla því að ríkisstjórnin hafi einvörðungu hugsað um bankana eða hagsmuni þeirra. Í því finnst mér liggja að bankarnir séu einhvern veginn eyland, innlendir og erlendir kröfuhafar og hagsmunir þeirra tengist ekki þjóðarhag. Ég held að öllum megi vera ljóst að mikill hagur er fyrir þjóðina að sem mest verðmæti fáist fyrir eignir bankanna víða um heim. Það skiptir máli upp á að ábyrgðir sem kunna að falla á íslenska skattgreiðendur verði eins litlar og kostur er og það skiptir líka máli vegna þess að hagsmunir erlendra kröfuhafa — þó að þeir séu vissulega bara einhverjir útlendingar, þá eru forsendur þess að við getum byggt upp efnahagslífið hér að nýju að við höfum áfram viðskiptasambönd erlendis, að við höfum áfram sambönd við erlenda banka og erlenda lánveitendur sem geta orðið okkur að liði þegar við förum í enduruppbygginguna sem allir gera sér grein fyrir að þörf er á.

Ég vil einnig nefna lagalega tómarúmið í starfi skilanefnda. Með því að setja bankana í greiðslustöðvunarferli er að mínu mati mikilli óvissu eytt varðandi lagalega stöðu (Forseti hringir.) búanna og ég tel að þess vegna séu frumvarpið og breytingartillögurnar sem við vinnum að til þess fallnar að minnka lagalega tómarúmið, (Forseti hringir.) sem ég get fallist á að hafi verið fyrir hendi þegar skilanefndirnar voru settar á.