136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

afsal þingmennsku.

[15:05]
Horfa

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Mér hefur borist svohljóðandi tilkynning í dag:

„Ég tilkynni hér með þá ákvörðun mína að segja af mér störfum sem alþingismaður. Jafnframt vil ég flytja öllum alþingismönnum sem ég hef starfað með á Alþingi Íslendinga kærar þakkir fyrir gott samstarf, svo og starfsfólki Alþingis. Um leið og ég óska íslensku þjóðinni gæfu og farsældar þá er það mín einlæga von að þjóðinni takist að sigrast á þeim erfiðleikum sem nú steðja að.

Bestu kveðjur og þakkir,

Guðni Ágústsson.“

Með þingmennskuafsali Guðna Ágústssonar hverfur úr röðum okkar alþingismanna einn úr forustusveit stjórnmálanna. Guðni Ágústsson hefur setið á Alþingi síðan 1987, eða í meira en 20 ár. Á vettvangi Alþingis gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum, bæði sem varaforseti og nefndarformaður. Þá varð hann landbúnaðarráðherra árið 1999 og gegndi því til ársins 2007. Hann var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2001 og tók við formennsku í flokknum árið 2007.

Við þessi þáttaskil vil ég fyrir hönd Alþingis þakka Guðna Ágústssyni fyrir langt og farsælt starf hans í þágu þings og þjóðar. Hann hefur sett mikinn svip á störf Alþingis sem og markað djúp spor í íslensku samfélagi á stjórnmálaferli sínum. Persónulega vil ég þakka honum fyrir gott samstarf allan þann tíma sem við höfum setið saman á Alþingi.

Guðni Ágústsson fer héðan með góðar kveðjur frá okkur alþingismönnum og við óskum honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í framtíðinni.