136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-reikningar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að ég er slegin í dag. Nú hefur formaður Framsóknarflokksins sagt af sér bæði formennsku og þingmennsku og ég mun sakna hans sárt og segi að þar sem hann fer fer drengur góður.

Virðulegi forseti. Ég vil taka þátt í þessari umræðu fyrir hönd flokksins vegna þess að síðasta föstudag hafði ég samband við þingforseta og bað um að þingið yrði kallað saman til að ræða þær skuldbindingar sem stjórnvöld eru að samþykkja að íslensk þjóð taki á sig til næstu áratuga fyrir hönd þjóðarinnar. Ég tel algjörlega ófært að skrifað sé undir samkomulag sem skuldbindur okkur um hundruð milljarða króna til langs tíma og að það sé gert án þess að þingið fái kynningu á því og umfjöllun um það áður en skrifað er undir en ekki eftir á. Þingið er algjörlega sett hjá ef það er ekki gert.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra, sem ég á von á að taki til máls aftur til að bregðast við því sem hér hefur komið fram, hvort búið sé að skrifa undir þetta samkomulag eða þessa yfirlýsingu, er það búið? Ef svo er spyr ég: Hver skrifaði undir? Ég vil líka spyrja: Ef það er búið, hvenær var það gert? Það tekur enga stund að kalla Alþingi saman, það er mjög auðvelt að gera það og það vitum við öll. Þingið og þjóðin á rétt á að tala um mál sem er svona stórt og svona íþyngjandi áður en skrifað er undir samkomulag en ekki eftir á. Þess vegna krefst ég þess að hæstv. utanríkisráðherra svari þessum spurningum.