136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

1. fsp.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta er undarlegur talnaleikur hjá hv. þingmanni því að við erum að taka fé að láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í ákveðnum tilgangi og það er ekki hægt að leggja þá peninga saman við það sem við á endanum kynnum að þurfa að borga vegna Icesave-málsins. Utanríkisráðherra kynnti þau drög sem fyrir lágu hvað varðar Icesave-málið í utanríkismálanefnd að morgni föstudags. Síðan tók málið ákveðnum breytingum og var í vinnslu hjá okkur í ríkisstjórninni á föstudegi og fram eftir degi á laugardegi og það var ekki fyrr en í gær sem við tókum endanlega ákvörðun um með hvaða hætti þetta yrði frágengið.

Við höfum ekki gefið frá okkur möguleika á því að mál þetta fari með einhverjum hætti fyrir dómstóla. Það sem liggur fyrir er það að við fáum ekki samkomulag um að fara slíka leið við Evrópusambandið og það er breytingin frá því að orð mín voru látin falla sem hv. þingmaður vitnaði til, að nú erum við ekki lengur að fást við tvær þjóðir og tvö atkvæði í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur 27 þjóðir og rúmlega það, því að það eru fleiri en Evrópusambandsþjóðirnar sem hafa fylkt liði í þessu máli, bæði hvað varðar lánafyrirgreiðsluna til okkar en einnig um þá lögfræðilegu skýringu sem sú afstaða byggist á og er auðvitað öndverð við það sem við höfum haldið fram.

Það er auðvitað fjarstæða hjá hv. þingmanni að gera því skóna að hér hafi verið eitthvert samsæri í gangi um að leyna almenning upplýsingum eða Alþingi. IMF-skjalið, Alþjóðagjaldeyrissjóðsskjalið, kemur fyrir Alþingi í dag á fyrsta degi eftir að ljóst varð hvenær um það verður fjallað í stjórn gjaldeyrissjóðsins. Við ákváðum að hlíta reglum sjóðsins um það efni en skjalið verður lagt fyrir Alþingi síðar í dag, jafnskjótt og það var mögulegt. Síðan er ætlunin, í stað þess að flytja þetta mál sem skýrslu, að leggja það fram sem þingsályktunartillögu til að hana megi ræða hér og taka til formlegrar afgreiðslu.