136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

gjaldeyrislán frá öðrum þjóðum.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta mál er með eftirfarandi hætti. Í fyrsta lagi verður umsókn Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekin til afgreiðslu þar væntanlega á miðvikudag. Í kjölfarið á því mun skýrast hvaða þjóðir innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru tilbúnar að leggja okkur fjárhagslegt lið til viðbótar því sem kemur frá sjóðnum sjálfum en þá á eftir að ganga frá lánsskilmálum hvað þau lán varðar. Þetta er það fyrra.

Síðara málið snýr svo að þessum Icesave-reikningum. Þar liggur fyrir það samkomulag sem hefur hér verið kynnt um að fara samningaleiðina en það liggur ekki fyrir hvað muni felast nákvæmlega í þeim samningum. Þar koma auðvitað til skjalanna atriði eins og þau sem hv. þingmaður nefndi, lánstími, vaxtakjör, greiðsluskilmálar að öðru leyti o.s.frv. og einnig ýmis önnur atriði sem við höfum hug á að taka upp.

Fólki er tíðrætt um stöðu Alþingis í þessu máli. Vissulega hefur Alþingi síðasta orðið. Það dettur engum í hug að draga það í efa. Við munum reyna að finna leið sem kallar fram vilja þingsins í þessu máli eins fljótt og auðið er. Þegar hlutir eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis kemur það venjulega til afgreiðslu þegar fjárlög eða fjáraukalög eru afgreidd. Ég get hins vegar vel séð fyrir mér að við fyndum aðra leið til þess að glíma við þetta tiltekna mál, í formi einhvers konar þingsályktunar eða með öðrum hætti, þannig að það komi alveg skýrt fram hvort Alþingi vilji að um þessi mál verði samið eða hvort þingið vill taka slaginn og hætta ýmsum öðrum hagsmunum með því að fara ekki samningaleiðina.