136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

samkomulag við IMF.

[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er mat hv. þingmanns á því hvernig samkomulag verður til. Ef hann telur að það verði almennt til með skilyrðum, og tala eigi um það sem skilyrði, má hann gera það mín vegna. En ég legg áherslu á að um er að ræða skjal sem er unnið sameiginlega og þetta er það form sem tíðkast hefur.

Ég tel ekki að með þessu sé verið að binda þjóðina einhverjum böggum. Við erum að fá fjármuni til að greiða úr þeim vandamálum sem verið hafa á gjaldeyrismarkaði. Ég held að það muni skipta gríðarlega miklu máli fyrir þjóðina og fyrir fjölskyldurnar og muni leiða til þess að verðbólga muni lækka og vextirnir þar með.

Hvað það varðar að ég hafi verið að skrifa undir eitthvað hér og þar um heiminn sem veldur einhverjum kostnaði þá kannast ég ekki við að hafa verið að gera það, alla vega enn sem komið er. Ekki þannig að það sé einhver skuldbinding í því hvað svo sem síðar kann að verða. En hafa skal það sem sannara reynist í þessum efnum.