136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga, með síðari breytingum. Efni frumvarpsins var kynnt fyrir helgi sem hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til stuðnings heimilunum í landinu í yfirstandandi efnahagsþrengingum. Frumvarpið er byggt á niðurstöðum sérfræðingahóps sem ég skipaði í lok október til að skoða hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Tillaga hópsins var sú að endurvekja úrræði laga nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga, með nauðsynlegum breytingum til að mæta því misgengi sem nú er að verða á tekjum einstaklinga og greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána.

Frumvarpið tekur í öllum meginatriðum mið af tillögum nefndarinnar. Til að frumvarpið geti komið til framkvæmda um næstu mánaðamót er nauðsynlegt að það fái hraða afgreiðslu á þinginu. Þá er nauðsynlegt að Hagstofan, fjármálastofnanir og starfsfólk þeirra leggi mikið á sig til að þetta gangi eftir. Takist það mun greiðslubyrði þeirra sem óska eftir greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána lækka strax í desember og enn meira þegar líður á næsta ár. Miðað við efnahagsspá Seðlabankans er áætlað að greiðslubyrði þessara lána verði í lok næsta árs um 17% lægri en ella hefði orðið.

Mikil umræða hefur verið um mögulegt afnám verðtryggingar að undanförnu og augljóst að væntingar margra hafa verið í þá átt. Ég ætla því að fara stuttlega yfir niðurstöður sérfræðingahópsins um þetta efni. Í vinnu hans fólst meðal annars að meta fjárhagsleg áhrif þess að fella tímabundið niður verðtryggingu á lánsfé og sparifé. Að mati hópsins er ljóst að afnám verðtryggingar á lánsfé mundi draga úr skuldum lántakenda en hætt er við ýmsum hliðarverkunum sem kæmu heimilunum í landinu illa. Gagnvart lánveitendum eru alvarleg formerki á því að afnema verðtryggingu lána. Samkvæmt því sem fram kom í starfshópnum liggur fyrir að ef verðtrygging á fasteignalánum til heimila væri felld niður tímabundið, til dæmis frá júní 2008 til júní 2009, mundu tekjur lánveitenda verða 180 milljörðum kr. minni á tímabilinu en ella, ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands er lögð til grundvallar. Áhrif slíkrar aðgerðar á greiðslubyrði mundi þó einungis skila um 8%–10% lækkun á greiðslubyrði af verðtryggðum lánum einstaklinga þar sem verðbætur leggjast við höfuðstól og greiðslubyrði af þeim dreifist út lánstímann. Frystingin mundi hins vegar leiða til þess að eigið fé lánastofnana lækkaði um 19% og er nær öruggt að engin lánastofnun gæti lifað slíkt af. Ætla má að með þessu yrði eigið fé Íbúðalánasjóðs uppurið fyrir áramót ef ekki kæmi á móti verulega aukið fé inn í reksturinn. Þetta mundi krefjast aukinnar skattheimtu sem því svarar nema ef jafnframt yrði ákveðið að frysta skuldahlið efnahagsreiknings viðkomandi lánastofnana.

Önnur hliðaráhrif af frystingu verðtryggingar lána heimilanna er hætta á að útgáfa verðtryggðra skuldabréfa mundi stöðvast á meðan á frystingunni stæði og því yrðu heimili og fyrirtæki að fjármagna fjárfestingar sínar með skammtímalánum á því vaxtastigi sem nú gildir. Loks er hætt við að fjárfestar mundu ekki treysta verðtryggingu í kjölfar slíkra aðgerða og mundi lánstími húsnæðislána því að líkindum styttast umtalsvert. Minnisblað starfshópsins um efnahagslegar afleiðingar af frystingu eða afnámi verðtryggingar fylgir frumvarpinu sem fylgiskjal.

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar hefur þegar fengið nokkra umræðu í samfélaginu í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti áætlun um aðgerðir til aðstoðar fjölskyldum og heimilum í landinu vegna þess erfiða ástands sem samfélagið stendur frammi fyrir. Ég veit að margir bundu vonir við að verðtrygging fasteignalána yrði felld niður. Eins og ég hef þegar gert grein fyrir var sú leið skoðuð ítarlega og niðurstöðurnar voru þær að slík ráðstöfun yrði í raun óframkvæmanleg við núverandi aðstæður vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem hún hefði í för með sér. Afnám verðtryggingar er einfaldlega ekki góður kostur í þeirri miklu verðbólgu og óstöðugleika sem nú er á fjármálamarkaði en ég tek fram að það er eitthvað sem mér finnst ástæða til að fara í þegar aðstæður leyfa. Í þessu samhengi vil ég leyfa mér að vitna til ágætrar greinar Gauta B. Eggertssonar og Jóns Steinssonar, með leyfi forseta:

„Talsverð umræða hefur verið síðustu vikur um almenna skuldaniðurfellingu annaðhvort beint eða í formi tímabundins afnáms verðtryggingar. Almenn skuldaniðurfelling hefur tvo alvarlega ókosti. Í fyrsta lagi er hún gríðarlega dýr. Ef ráðist væri í 25% niðurfellingu húsnæðislána mundi það kosta ríkissjóð um 300 milljarða kr. í gegnum verri afkomu nýju bankanna. Slík aðgerð mundi því með öðrum orðum þýða hærri skatta í framtíðinni sem nemur 300 milljörðum kr. Þessir auknu skattar mundu bætast ofan á skattana sem þarf að afla til þess að borga fyrir annan kostnað ríkisins af kreppunni og hruni bankanna. Varlega áætlað verður sá kostnaður ekki undir 600 milljörðum kr. Ef við gefum okkur til einföldunar að landsmenn greiði skatta í réttu hlutfalli við tekjur sínar þá þýðir aukin skattheimta upp á 900 milljarða kr. í framtíðinni að fjölskylda sem er með árstekjur upp á 8 millj. þarf að greiða 6 millj. aukalega í skatta í framtíðinni. 2 millj. af þessum 6 millj. kr. væru vegna skuldaniðurfellingar.“

Þeir félagar Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson nefna einnig að hinn ókosturinn við svona almenna skuldaniðurfellingu er að stór hluti aðstoðarinnar mundi ekki renna til þeirra sem verst eru staddir. Þeir sem fengju mest út úr almennum skuldaniðurfellingum væru þeir sem hefðu stærstu húsnæðislánin.

Ég ætla nú að ræða efni frumvarpsins og gera grein fyrir því hvaða áhrif það mun hafa á greiðslubyrði lána hjá þeim sem nýta sér greiðslujöfnun í samræmi við ákvæði frumvarpsins.

Verði frumvarpið að lögum geta viðskiptavinir allra lánastofnana sem eru með verðtryggð fasteignaveðlán óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna telji þeir það þjóna hagsmunum sínum. Gert er ráð fyrir að lögin komi til framkvæmda við næstu mánaðamót en til að svo megi verða verður þingið að afgreiða málið á mjög skömmum tíma því forrita þarf öll greiðslukerfi með tilliti til nýrrar vísitölu. Miðað við efnahagsspá Seðlabankans er áætlað að greiðslubyrði þeirra lána þar sem greiðslujöfnun verður beitt verði í lok næsta árs um 17% lægri en ella hefði orðið án greiðslujöfnunar.

Greiðslubyrði lána hefur vaxið ört að undanförnu vegna mikillar verðbólgu samhliða því að kaupmáttur fólks hefur rýrnað. Við þessar aðstæður þyngist greiðslubyrði fólks af fasteignalánum verulega og getur reynst sumum ofviða vegna þess misræmis sem verður milli lána og launa. Megintilgangur frumvarpsins er að koma í veg fyrir eða sporna eins og kostur er við misgengi milli lána og launa. Markmið frumvarpsins er að bjóða lánshöfum leið til að brúa þetta bil með því að létta greiðslubyrðina tímabundið á meðan niðursveiflan gengur yfir og koma eins og kostur er í veg fyrir misgengi launa og greiðslubyrði lána eins og ég nefndi hér áður.

Aðferðin við greiðslujöfnun felst í því að reiknuð verður ný vísitala, svonefnd greiðslujöfnunarvísitala sem gefin verður út mánaðarlega. Í greiðslujöfnunarvísitölunni verði vegin saman launaþróun samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands og þróun atvinnustigs samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar. Ef afborganir samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu reynast lægri en afborganir samkvæmt vísitölu neysluverðs sem er grundvöllur verðtryggingar verðtryggðra lána er þeim hluta af afborgunum fasteignaveðlánsins sem nemur mismuninum frestað þar til greiðslujöfnunarvísitalan hækkar á ný umfram neysluvísitöluna. Sá hluti afborgana sem frestast er færður á sérstakan jöfnunarreikning sem bætist við höfuðstól lánsins. Þegar afborganir af láninu reiknaðar samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu eru aftur á móti hærri en afborganir reiknaðar samkvæmt neysluvísitölu greiðist mismunurinn inn á jöfnunarreikning til lækkunar höfuðstóls lánsins. Sé skuldajöfnunarreikningur við lok upphaflegs lánstíma er lánstíminn lengdur eins og nauðsynlegt er þar til lánið hefur verið greitt til fulls með sambærilegri greiðslubyrði og áður.

Við útreikning á greiðslujöfnunarvísitölu verður miðað við 1. janúar 2008 og greiðslubyrði lána sem voru tekin fyrir þann tíma mun þróast í samræmi við greiðslujöfnunarvísitölu frá þeim degi og þannig verða svipuð og greiðslubyrðin þá. Hafi fasteignaveðlán verið tekið eftir 1. janúar 2008 mun greiðslubyrðin verða svipuð og hún var við upphaf lánstímans.

Eins og ég sagði áðan munu allir sem eru með verðtryggð fasteignalán hvort sem þeir eru í viðskiptum við opinberar lánastofnanir, lífeyrissjóði eða önnur fjármálafyrirtæki með starfsleyfi hér á landi eiga rétt á greiðslujöfnun lána sinna samkvæmt frumvarpinu óski þeir eftir því. Slíkri umsókn skal koma á framfæri við viðkomandi lánastofnun og hún verður umsækjanda að kostnaðarlausu og þarf t.d. ekki að greiða við þessa skilmála breytingarstimpilgjald. Mikilvægt er að halda því til haga að lántakendur geta sagt sig frá greiðslujöfnun síðar á lánstímanum ef aðstæður þeirra breytast til betri vegar. Mikilvægt er líka að undirstrika í þessu sambandi að hér er ekki um tímabundið úrræði að ræða heldur gerir frumvarpið ráð fyrir áframhaldi þess nema annað verði ákveðið.

Fyrir liggur að greiðslujöfnun muni í raun leiða til aukins kostnaðar fyrir lántakendur þegar upp er staðið í formi vaxta og verðbóta. Því er alls ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun. Hver og einn þarf að skoða þetta í ljósi aðstæðna sinna og taka ákvörðun í samræmi við það. Þetta úrræði léttir hins vegar umtalsvert greiðslubyrði af láni tímabundið í niðursveiflu og getur þannig létt byrðar heimilanna í landinu þó einkum þar sem staðan er þröng fyrir. Verði frumvarpið að lögum mun ég leggja áherslu á að vel verði staðið að kynningu úrræðisins gagnvart lántakendum þannig að hver og einn fái bestu mögulegu forsendur til að meta hvort greiðslujöfnun henti aðstæðum hans eða ekki.

Forsendur sem hér er stuðst við um áhrif þessara breytinga byggjast á spám Seðlabankans um verðbólgu og atvinnuleysi en gert er ráð fyrir að launavísitala Hagstofunnar hækki lítið á næstunni. Rétt er að hafa í huga að í þeim gögnum sem unnið var með síðustu daga miðast útreikningar hins vegar við launakostnaðarvísitölu en ekki launavísitölu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir að verði lögð til grundvallar. Ekki liggur fyrir á vettvangi Seðlabankans spá um þróun launavísitölu en til lengri tíma má reikna með að þessar vísitölur þróist með svipuðum hætti þótt einhver hliðrun geti orðið á milli tímabila.

Í vinnslu málsins hafa nokkrar aðferðir verið notaðar til að reikna út áhrifin af greiðslubyrði og kemur fram lítilsháttar mismunur á niðurstöðum eftir því hvaða aðferð er beitt. Annars vegar er ástæðan tæknileg útfærsla sem snýr að þeirri tímatöf sem er á birtingu launaþróunar á launavísitölu Hagstofunnar og þeim tíma sem reikningskerfi banka og Íbúðalánasjóðs þurfa til að reikna afborganir næsta mánaðar. Því liggur ekki endanlega fyrir hversu mikið þarf að hliðra launavísitölunni til en vonir standa til að það verði einungis um tveir mánuðir eins og nú er með vísitölu neysluverðs.

Hins vegar liggur ástæðan í því að útreikningar miðuðust ýmist við launakostnaðarvísitölu eða launavísitölu. Í gögnum og dæmum sem unnið hefur verið með undanfarna daga var miðað við launakostnaðarvísitölu í samræmi við spá Seðlabanka eins og áður hefur komið fram enda við það miðað að öll gögn byggðust á sömu spánni, þ.e. spá Seðlabankans.

Til enn frekari skýringar var ákveðið að notast einnig við spá um launavísitölu þar sem sú vísitala er birt mánaðarlega. Báðar aðferðir gefa svipaða niðurstöðu fyrir greiðslubyrði heimila í lok næsta árs enda gangi forsendur eftir. Nokkur munur er hins vegar á upphafsbreytingunni. Ef miðað er við spá um launavísitölu verður greiðslubyrði áætluð í desember um 6% lækkun í stað 10% ef miðað er við launakostnaðarvísitölu. En í febrúar verður greiðslubyrðin 11% lægri en ella hefði orðið án greiðslujöfnunar.

Þá er einnig vert að hafa í huga að dæmin byggja á spá um þróun neysluvísitölunnar annars vegar og hins vegar spá um þróun launa og atvinnuleysis. Allar eru þessar forsendur breytingum undirorpnar og því rétt að hafa alla fyrirvara á niðurstöðum. Dæmin sýna þó hversu mikilvægt úrræðið gæti reynst ef þróun efnahagsmála þjóðarinnar verður með svipuðum hætti og Seðlabankinn spáir fyrir um.

Í frumvarpinu er farið yfir áhrif þessarar greiðslujöfnunar á lánastofnanir og þar segir, með leyfi forseta:

„Ætla má að ef allir lántakendur verðtryggðra fasteignaveðlána nýttu sér þessa greiðslujöfnun hjá fjármálafyrirtækjunum mundi lausafé þessara fyrirtækja minnka um kringum 13 milljarða kr. í árslok 2009, mest hjá bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði. Svarar þetta til 1,3% af heildarupphæð verðtryggðra lána heimilanna. Til að mæta þessari lausafjárþörf, sem þó telst ekki umtalsverð enda einungis um 0,3% af lánakerfinu í heild, er lagt til að lögð verði sú skylda á ríkissjóð að tryggja með atbeina Seðlabanka Íslands, eftir atvikum, að lánastofnanir skv. 1. mgr. ákvæðisins hafi aðgang að lausafé til að mæta þeim áhrifum sem greiðslujöfnun samkvæmt þessum lögum hefur á lausafjárstöðu þeirra. Með slíkri fyrirgreiðslu á að vera tryggt að lánastofnanir skv. 1. mgr. verði ekki fyrir tjóni vegna þeirrar skyldu sem lögð er á þær með setningu laganna.“

Samkvæmt minnisblaði sem félags- og tryggingamálaráðuneyti hefur borist frá Íbúðalánasjóði liggur þegar fyrir, að teknu tilliti til lausafjárstöðu sjóðsins, að ekki er talið að hann þurfi á sérstakri fyrirgreiðslu að halda á árinu 2009 vegna fyrirhugaðrar greiðslujöfnunar útlána.

Það sama gildir um lífeyrissjóðina og í þeim 13 milljörðum sem hér er getið um hefur verið dregið frá að lífeyrissjóðir þurfi á fyrirgreiðslunni að halda og talan lækkar enn fyrst í ljós hefur komið að Íbúðalánasjóður þarf ekki á fyrirgreiðslunni að halda.

Virðulegi forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Frumvarpið fer nú til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd, sem fjallar um málið og metur hvort hún treystir sér til að afgreiða það á þeim skamma tíma sem hér er gert ráð fyrir. En samkvæmt upplýsingum sem við höfum þarf að hafa mjög hraðar hendur á afgreiðslu málsins og helst að afgreiða það á þessum sólarhring ef það á að geta komist til framkvæmda og haft áhrif á greiðslubyrði þeirra sem kjósa að velja þessa leið núna 1. desember.

En að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.