136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég held að nauðsynlegt sé að kalla eftir skýrslu þeirrar nefndar sem fékk þetta verðtryggingarmál til ítarlegrar skoðunar, athuga hvað sú nefnd hefur haft langan tíma til að skoða þau mál ítarlega vegna þess að vandinn sem við erum að tala um er ekki tíuþúsundkall 1. desember. Það er bara rangt. Vandinn sem verið er að tala um er að verðbólguskotið sem ríða mun yfir þegar krónunni verður fleytt mun hafa alveg gríðarleg áhrif á greiðslubyrði heimilanna, ekki endilega 1. desember næstkomandi heldur út allt næsta ár. Ég er ansi hrædd um að ýmsir gjalddagar verði þyngri en 1. desember hjá fólki eftir að atvinnuleysið er orðið meira og þegar uppsagnarfresturinn er liðinn hjá þeim sem þegar hafa fengið uppsagnarbréfin.

Ég held að nær væri að Alþingi tæki sér tak og skoðaði verðtryggingarmálin í alvöru. Er það virkilega svo að verðbólguskotið sem menn eru að undirbúa með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigi að nota til eignamyndunar í lánastofnunum? Hæstv. ráðherra nefndi hér í ræðu sinni að tekjur lánastofnana yrðu 180 milljörðum kr. lægri, heyrðist mér, ef verðtryggingin yrði tekin af frá 1. júní á þessu ári til 1. júní á næsta ári. Hvað þýðir það? Það þýðir að heimilin eiga að borga 180 milljarða kr. vegna verðbólgunnar fyrir það tímabil. Það er bara þannig.

Það er þetta sem Alþingi á að tala um, hæstv. forseti, og ég hlýt að ítreka þá ósk að Alþingi fái góðan tíma til að skoða þetta og fái þessa skýrslu. Því það er líka upplýst að úrræðið sem hér er verið að kynna er ekki lækkun á greiðslubyrði, það er frestun á greiðslum og eins og hæstv. ráðherra sagði, það verður fólki dýrara og erfiðara þegar upp verður staðið. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt leið, hæstv. forseti.