136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Engin leið er að svara því á þessari stundu hversu margar fjölskyldur verða gjaldþrota á næstu mánuðum og hversu margar fjölskyldur muni lenda í verulegum greiðsluerfiðleikum. Ástandið er þannig núna að þetta dynur yfir á hverjum degi. Við sjáum því miður hækkandi tölur um atvinnuleysi og að skuldastaða heimilanna snarversnar og engin leið er að átta sig á því hversu margir muni vera komnir í verulega erfiðleika, t.d. eftir jólamánuðinn í janúar, febrúar. Því miður er það svo.

Við vonumst auðvitað til að þær aðgerðir sem verið er að grípa til verði til þess að létta á þeim sem illa standa og hjálpa þeim þannig að þeir geti bjargað sér og komist hjá því að lenda í slíkum raunum sem gjaldþrot er. Það er grundvallaratriði í þessu. Í því sambandi nefndi ég frumvarpið um greiðsluaðlögun eða þessa leið, greiðsluaðlögunarleiðina, sem er til þess fallin að hjálpa fjölskyldum sem eru í miklum vanda.

(Forseti (KHG): Forseti biðst forláts en það var vitlaus tími settur af stað í andsvarinu þannig að ræðumaður fékk rangar upplýsingar um hve mikið væri eftir.)