136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[18:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég hefði viljað koma að örfáum atriðum varðandi þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga sem hér hefur verið til umræðu. Ég vil vísa til ágætrar umfjöllunar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem fór í gegnum þetta mál fyrr í umræðunni.

Markmið þessara laga er að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignalánum einstaklinga. Sérstaklega er horft til hækkunar á vísitölu og hvernig hún kemur niður á verðtryggðum lánum. Það er náttúrlega bæði verðtryggingin og hvernig hún hefur áhrif á lánin og einnig vextirnir sem hafa áhrif á greiðslubyrði einstaklinga og hins vegar hvernig launaþróunin er fyrir einstaklingana til að standa undir greiðslu af þessum lánum. Eins og ég segi, þetta tvennt vegur saman, vísitala og verðbótaþátturinn og vextirnir. Þegar verðtryggingin er orðin eins og nú, það er búist við mikilli verðbólgu og það er mikil verðbólga en samtímis munu eignirnar falla í verði þannig að þær munu ekki fylgja verðbólgunni í hækkun á verðgildi heldur jafnvel lækka á móti. Þá gefur augaleið að verðtrygging lána með veð í eignum sem jafnvel eru að lækka í verði — þar er um alvarlegt misgengi að ræða. Þá fer maður í rauninni að velta fyrir sér hvaða sanngirni það er að hafa lán verðtryggð með þeim hætti.

Maður veltir líka fyrir sér hvernig sú vísitala sé reiknuð út sem metur verðbreytingar út frá gjörbreyttum forsendum frá því sem verið hefur. Bæði hlýtur neyslumynstur að breytast mjög hratt nú og þeir þættir sem áður hafa verið afgerandi í grunni svokallaðrar vísitölu hljóta að verða allt aðrir. Alla vega er ljóst að íbúðaverð kemur ekki til með að hækka á næstunni og þar af leiðandi hlýtur íbúðaþátturinn að eiga að fara lækkandi. Ég tek því undir það sem hér er lagt til að menn finni út nýja — einhver kallaði það greindarvísitölu en það var greiðslujöfnunarvísitölu — nýja greindarvísitölu fyrir ríkisstjórnina í þessum efnum þar sem maður veltir fyrir sér hvort sú greindarvísitala sem menn kalla þarna greiðsluvísitölu hækki eða lækki.

Eitt er samt ljóst og kemur fram í frumvarpinu að það er hreinlega ekki ljóst hvernig Hagstofan ætlar að reikna þessa nýju greiðsluvísitölu út. Hagstofunni er falið að reikna hana út á forsendum sem ekki er almennilega eða fyllilega gerð grein fyrir í frumvarpinu. Ég tel að það hefði átt að vera skýrara á hvaða grunni Hagstofan á að reikna út nýjar vísitölur. Þetta var samt annað atriði og það verður náttúrlega farið nákvæmlega ofan í þetta í nefnd.

Það sem ég vildi vekja athygli á, herra forseti, af því að við ræðum hvernig megi létta greiðslubyrði sérstaklega á íbúðareigendum sem eru með lán á sínum íbúðum, er það annars vegar gert með því að frysta verðhækkanirnar, vísitöluhækkanirnar. Það finnst mér vera atriði sem eigi að skoða mun betur en hér er gert. Þetta er jú alltaf spursmál um forgangsröðun á ráðstöfun ríkisfjár til þess að koma til aðstoðar því fólki sem á í erfiðleikum. Ein af fáum forgangsröðunum sem hefur birst af hálfu ríkisstjórnarinnar er þetta framlag sem var lagt til nýju bankanna til þess að greiða út hærri hlut úr svokölluðum peningamarkaðssjóðum. Menn hafa talað um að þar hafi allt upp í 200 milljarða kr. af ríkisfé verið lagðir inn í bankana til þess að þeir geti greitt út úr peningamarkaðssjóðunum.

Ég geri ekki lítið úr vanda þess fólks og þeirra aðila sem voru að tapa fé úr peningamarkaðssjóðum. Engu að síður valdi ríkissjóður þarna að koma inn með allháa upphæð eða tilsvarandi upphæð og mundi kosta að afnema eða frysta verðtryggingu íbúðalána í eitt ár. Það er því í sjálfu sér alltaf spurning um forgangsröðun þegar verið er að grípa inn í svo alvarlegt ástand og núna er.

Hitt eru svo líka vextirnir. Það er einmitt horft til þess að líklega muni vextir líka hækka verulega. Að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru stýrivextir hækkaðir upp í 18% nú nýverið og eins hefur komið fram í þeim skilmálum sem eru varðandi lántökur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að hann áskilur sér rétt, eða gerir því skóna að gerð verði krafa um enn þá hærri stýrivexti. Þeir vextir munu náttúrlega koma af fullum þunga inn á íbúðalánin líka auk þess sem búast má við að til þess að standa undir þeim miklu skuldbindingum sem eru fram undan geti Íbúðalánasjóður þurft að hækka vexti. Í pípunum eru því miklar vaxtahækkanir ef ekki er gripið í taumana.

Það hefur verið rætt um verðtrygginguna. Hún er af mörgum talin mjög ósanngjörn, það gildi bara að tryggja annan aðilann en mótaðilinn, lánveitandinn, hafi sitt á þurru hvað verðtryggingu varðar og slíkt sé óeðlilegt. Á móti hafa menn sagt að með þessu sé hægt að tryggja lægri vexti. Ljóst er samt að þegar lán er verðtryggt hlýtur að verða að setja þak á kröfugerð kröfuhafans einhvers staðar annars staðar líka. Lántakandinn er nánast berskjaldaður bæði fyrir vöxtum, vaxtahækkunum og verðtryggingunni.

Ég vil geta þess að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum lagt fram á Alþingi frumvarp til laga, sem var dreift áðan, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Það frumvarp snertir sama mál og hér er fjallað um þó að þetta séu önnur lög. Þar leggjum við til að lögum verði breytt þannig að verðtryggt lánsfé skuli ekki bera hærri vexti en 2%, þannig að þegar lántakandi hefur lánið verðtryggt beri hann ekki hærri vexti en 2%. Ef ég man rétt ætti þetta einmitt að smellpassa við hugmyndafræði og tillögur hæstv. félagsmálaráðherra sem lagði eitthvað svipað til fyrir nokkrum árum. Að þak yrði sett á vexti af verðtryggðum lánum, hvort sem það voru 2 eða 3% sem hæstv. ráðherra var þá með í sínum tillögum. Við teljum eðlilegt að einmitt þetta sé skoðað nú um leið og fjallað er um þetta mál. Ég vísa á þetta frumvarp sem hefur verið dreift og liggur hér frammi þar sem við leggjum til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en sem nemur 2%. Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru í samfélaginu, óðaverðbólgu og háa vexti, yrði þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur.

Ég tel einmitt og vil árétta að okkur ber að beita öllum ráðum til þess að koma fram af réttlæti og sanngirni gagnvart lántakendum. Verum minnug þess að þau íbúðalán sem hafa verið tekin á undanförnum árum voru tekin á skilmálum sem hljóðuðu upp á að ríkisstjórnin og Seðlabankinn ábyrgðust að verðbólga færi ekki yfir hærri vikmörk en rúm 4%. Þetta var loforð, yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, og fólk hafði ekki tök á öðru en að taka mark á því. Þegar hin nýju lög um Seðlabanka voru samþykkt, að mig minnir árið 2000 eða 2001, voru þessi verðbólgumarkmið sett, þannig að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Framsóknarflokknum og núna með Samfylkingunni, ber í raun ábyrgð á því ef verðbólgan fer upp fyrir 4,5% en ekki fólkið sem tók lánin. Hvers vegna eiga mistök ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að bitna á saklausu fólki sem tók viðkomandi ríkisstjórn allt of trúanlega og lét hana komast upp með þetta? Við leggjum því til að einmitt með þessum hætti verði tryggt að verðtryggt lánsfé beri aldrei hærri vexti en 2% enda ætti það að vera nægilegt.

Ég vil minnast á eitt til viðbótar og það eru þessi myntkörfulán sem snerta líka íbúðareigendur. Mér finnst að það eigi líka að taka á þeim lánum. Krónan hefur jú lækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum og þegar erlendu lánin voru tekin og sett inn í nýju bankana var í raun skorið á öll tengsl við erlenda lánaaðila og alla sem lánuðu fé í erlendum gjaldeyri. Þessi erlendu lán eru því nú orðin innlend lán í innlendum bönkum og það er bara bókfærsluatriði hvernig þau eru færð. Ég hef þær upplýsingar t.d. að þessi lán hafi verið eignfærð í efnahagsreikningi viðkomandi banka á gengi eins og það var um mánaðamótin september/október. Nú er verið að skuldbreyta þessum lánum á gengi sem er allt annað, þegar gengisvísitalan fer yfir 200.

Mér finnst bankarnir vera að sækja sér fé sem hæpið er að þeir eigi siðferðilegan rétt á. Alla vega eru þessi lán eignfærð. Þau voru færð á milli gömlu og nýju bankanna á ákveðinni gengisvísitölu en síðan er verið að ganga til samninga við fólkið á nærri tvöfalt eða 50% hærri gengisvísitölu. Ég tel því fulla ástæðu til að þessir þættir verði líka skoðaðir. Hvaða rétt bankarnir hafi til að skuldbreyta eða skilmálabreyta erlendum gengislánum á gengi sem er kannski 50% hærra gengi en bankarnir hafa eignfært það á.

Herra forseti. Það voru þessi atriði sem ég ætlaði að koma á framfæri. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp sem við flytjum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að verðtryggt lánsfé skuli aldrei bera hærri en 2% vexti, komi líka inn í þessa umræðu sem fram undan er varðandi þetta mál.