136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[22:50]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að bæta miklu efnislega við athugasemdirnar sem hafa komið fram með þeim fyrirvara sem settur er við nefndarálitið. Í fyrsta lagi er það innihald málsins, um er að ræða almennar tillögur sem rista grunnt, skammt og stutt. Þær eru ágætar svo langt sem þær ná en ýmislegt vantar inn í heildarmyndina sem erfitt er að gera sér grein fyrir en þar sem ég hef lýst því áður að ég teldi þingið eiga að flýta fyrir svona málum en ekki tefja, þá samþykki ég í kvöld. Fyrirvarinn lýtur ekki síst að málsmeðferðinni en hér hafa mál verið afgreidd undanfarnar vikur með afbrigðum á afbrigði ofan og ekki eru nema rétt liðlega sex vikur — ætli það séu ekki sex vikur í dag — síðan lög, nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, voru samþykkt. Ég veit ekki betur en lögfróðustu menn landsins hafi setið með þau lög síðan og enn ekki fundið út úr því hvað þau þýða þannig að það er með ákveðinni hræðslu sem nýr þingmaður sest inn og á að afgreiða lög, sem keyrð eru í gegnum þingið á einum degi með sama hætti og neyðarlögin, og hafa ekki tíma til að setja sig inn í málin og gera sér grein fyrir hvaða afleiðingar lögin munu hafa. Vissulega komu margir gestir á fund nefndarinnar í kvöld og er það vel og vil ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir en ég get ekki séð að vinnubrögð af þessu tagi séu þinginu til framdráttar og geri þá kröfu að menn vandi sig aðeins betur. Ég veit að aðstæður eru erfiðar og að vinna þarf hratt en við hljótum að geta gert örlítið betur en þetta.

Frú forseti. Ég vil að lokum þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að halda því til haga að hér er endurflutt 23 ára gamalt mál sem Framsóknarflokkurinn átti á sínum tíma, árið 1985. Að vísu voru aðeins aðrar aðstæður uppi þá en ef það getur gagnast okkur af einhverju tagi í dag þá er það hið besta mál.