136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[23:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina þar sem hún svaraði nokkru af því sem til hennar var beint. Ég verð nú segja hæstv. félagsmálaráðherra það til hróss að það bitastæðasta sem komið hefur frá ríkisstjórninni að undanförnu hefur flest komið úr ráðuneyti félags- og tryggingamála. Það er rétt að halda því til haga. Hins vegar má kannski segja að ráðherranum hafi ekki gengið allt of vel að eiga við fjármálaráðherrann því að auðvitað kosta bitastæðar aðgerðir fé og fjármálaráðherrann hefur ekki verið tilbúinn til þess að láta það fé af hendi rakna. Það getur því vel verið að þar sé einhverra skýringa að leita í þessu efni. Ég fagna því líka að boðaðar eru frekari aðgerðir og að væntanleg séu frekari frumvörp um þetta efni, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Varðandi þá gagnrýni sem við höfðum uppi á málsmeðferðina er rétt hjá hæstv. ráðherra að málið var kynnt fyrir talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna núna á föstudaginn og frumvarpið var að líta dagsins ljós og taka breytingum fyrir helgina. En það er auðvitað alveg hægt og ekkert sem bannar ráðherrum að draga fulltrúa stjórnarandstöðunnar inn í mál á fyrri stigum, á undirbúningsstigum, sérstaklega ef málin eru þannig vaxin að það stefnir í að þau þurfi að komast í gegnum þingið á tiltölulega skömmum tíma. Það er ekkert sem bannar að reynt sé að hafa meira samráð um mál, þess vegna á meðan þau eru í vinnslu hjá ráðherra. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðherra á það í allri vinsemd (Forseti hringir.) að því er lýtur að þeim málum sem boðað er að komi inn á næstunni.