136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[23:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðallega að gera athugasemd við lítillæti hæstv. ráðherra. Hún nefnir ýmis atriði sem hafa verið gerð til hagsbóta fyrir fjölskylduna. Hún gleymir aðalatriðinu sem eru neyðarlögin sem við settum og forðuðum fjölskyldum þessa lands frá hörmungum, frú forseti.

Ef greiðslukerfi landsins hefðu hrunið og hin venjulega fjölskylda í landinu hefði ekki getað keypt í matinn kannski í viku eða lengur og ef sparifjáreigendur hefðu ráðist á bankann og tekið innstæður sínar út og valdið með því hruni fjármálakerfisins — það eru meginatriðin sem ríkisstjórnin spornaði gegn og forðaði þannig fjölskyldum frá hörmungum.