136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:52]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að leiðrétta hv. þm. Ögmund Jónasson hvað það varðar að ég hafi komið í veg fyrir einhvers konar úttekt á einkarekstri eða einkavæðingu. Hið sanna í málinu er að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur beitt sér gegn því að sú úttekt hafi farið í gang og í gegnum þingið.

Hér fyrir framan mig er ég með tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Ásta Möller og fleiri þingmenn lögðu fram á síðasta þingi. Þetta var þingmannamál sem viðskiptanefnd vildi afgreiða og afgreiddi frá sér en (Gripið fram í.) þá kom hv. þm. Ögmundur Jónasson sérstaklega inn í nefndina til að koma í veg fyrir að málið færi í gegn. Og hvað er nú um að ræða í þessu máli? Hér stendur, með leyfi forseta:

„Athugunin skal einnig beinast að því að skoða reynslu sem þegar hefur fengist af einkarekstri og einkaframkvæmd.“

Þetta var það sem ég vildi fá í gegn, þetta var það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vildi koma í veg fyrir. Hann kom sérstaklega í þingnefndina, sem hann situr að öllu jöfnu ekki í, til að tala gegn þessu því að hann treysti ekki flutningsmönnum eins og hann sagði á fundinum. Það er hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hefur komið í veg fyrir að þessi athugun ætti sér stað. Ekki þingmaðurinn sem hér stendur heldur þvert á móti. Þetta veit hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Lestu bara málið sem þú ert að tala gegn.