136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Seðlabankinn er ekki gjaldþrota, hvorki tæknilega né öðruvísi. Áætlunin sem kynnt hefur verið og er hér í fylgiskjali sem viljayfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabankans var unnin í mjög góðu faglegu samstarfi sérfræðinga á vegum bankans og á vegum ríkisstjórnarinnar en einnig á vegum yfirstjórnar bankans og ráðherranna í ríkisstjórninni. Upp á það samstarf er nákvæmlega ekkert að klaga. Og þessi spurning, sem dúkkar upp reglulega, á engan rétt á sér í tengslum við það mál sem hér er verið að ræða. Seðlabankinn skrifar undir viljayfirlýsinguna, formaður bankastjórnarinnar gerir það ásamt fjármálaráðherranum. Seðlabankinn gerir sér nákvæmlega grein fyrir því hvert verkefni hans er varðandi þessa áætlun. Fagmenn Seðlabankans og bankastjórn hafa undirbúið það að setja krónuna á flot og ég veit ekki annað en það verði gert á næstu dögum. Það er ekkert upp á það að klaga að menn hafi ekki unnið vinnuna sína í þeim banka.