136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:45]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil víkja að þremur atriðum í máli þingmannsins. Hann drap á viðtal við mig í Morgunvaktinni í útvarpinu í morgun. Þar nefndi ég sérstaklega hvernig ætlunin væri að standa að aðgerðum á gjaldeyrismarkaðnum á næstu dögum. Það er ekki meiningin að sturta þessu láni út á gjaldeyrismarkaðinn til að tapa öllum þessum peningum. Það kemur bara ekki til greina. Ég held að engum manni hafi einu sinni dottið það í hug. Þetta er fyrst og fremst hugsað sem varasjóður sem gæti þurft að grípa til til að eyða sveiflum á markaðnum en ekki til að verja einhverja vonlausa stöðu eða vonlaust gengi í þeim efnum.

Tvö atriði til viðbótar, herra forseti. Hv. þingmaður nefndi að í 22. lið stæði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Meðan á þessu stendur biðjum við um tímabundið samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þessum gjaldeyrishöftum ...“

Hafði þingmaðurinn þetta til marks um aumingjaskapinn og undirgefnina við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En það vill nú bara þannig til, herra forseti, að hérna er um að ræða eina af grundvallarreglunum sem allar aðildarþjóðir gjaldeyrissjóðsins gangast undir þegar þær gerast aðilar, þ.e. að vera ekki með fjölgengi, vera ekki með gjaldeyrishöft á viðskiptum sem eiga sér stað með vöru og þjónustu þannig að þetta höfum við gengist undir um langt árabil. Við erum að biðja hér um almenna undanþágu frá því sem hefur í raun og veru ekkert með þessa viljayfirlýsingu að gera, en því er lýst yfir að við munum fara þá leið út af þessu tiltekna atriði.

Í lið 25 er talað um að hafa samráð í samræmi við stefnu sjóðsins um slíkt samráð. Sjóðurinn er með ákveðnar viðmiðanir þegar kemur að því að ræða saman og það er ekkert óeðlilegt við að farið sé út í slíkt samráð í samræmi við þær reglur sem um það gilda hjá sjóðnum.