136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:11]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Þá liggur það fyrir að ástæða þess að ríkisstjórnin setti hér öll mál í hnút og málin hafa tekið þann mánuð sem hefði ekki þurft að taka til að fá þá fyrirgreiðslu sem nú liggur fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, var vegna þess að menn kusu að loka á samningaleiðina. Sú leið var kosin að fara í lögfræðilega deilu, eins og hæstv. utanríkisráðherra talaði um, við önnur ríki Evrópusambandsins og í raun slíta á þá samskipta- og úrræðamöguleika sem voru fyrir hendi. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það verulegt ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa komið málum í þann farveg algjörlega að ástæðulausu og með því glatað verulegum verðmætum og kallað (Forseti hringir.) meiri leiðindi og erfiðleika yfir þjóðina.