136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:13]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að svara þurfi fleiri spurningum en hér hafa komið fram. Ég spyr þess vegna um vaxtakjör og hvenær eigum við að vera búin að borga upp þessi lán og annað í þeim dúr. Ég spyr líka um málaferli út af hryðjuverkalögum sem voru sett á okkur í Bretlandi.

Ef við gefum okkur að það sé rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur haldið fram og varafjármálaráðherra Finnlands að skuldir okkar verði 1.400 milljarðar eftir þær lántökur sem við erum að fara í gegnum núna með 5% vöxtum, þá erum við að tala 70 milljarða á ári í vaxtagreiðslur bara út af þessum lánum sem er auðvitað mjög erfitt og þungt. Það er nærri jafnmikið og fæst fyrir allan afla upp úr sjó á Íslandsmiðum á þessu fiskveiðiári. Við erum því ekki að tala um neina smáaura. Við erum að tala um gjaldþrota Seðlabanka og að setja krónuna á flot og óvissan er þvílík við að setja krónuna á flot með þeim hætti sem fyrirhugað er að við horfum jafnvel upp á að peningarnir sem við erum að taka að láni muni nánast fjúka út um gluggann ef þeir sem eiga jöklabréfin innleysa þau.

Það væri líka fróðlegt að fá að vita hver lánakjör annarra þjóða eru á því láni sem við erum að fá hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er mjög tímabært að fá allar upplýsingar um það sem er í gangi. Ég hef ekki heyrt á það minnst, hvorki hjá forsætisráðherra né hæstv. utanríkisráðherra.