136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Grétar Mar Jónsson sé að spyrja um vaxtakjör og afborganir af þeim lánum sem tengjast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ekki Icesave-reikningunum vegna þess að við eigum alveg eftir að ræða mál varðandi Icesave-reikningana við viðkomandi lönd og hvaða fyrirgreiðslu þau og Evrópusambandið eru tilbúin að veita okkur.

En hvað varðar lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur fram að við eigum að borga það til baka á árunum 2012–2015 og þess vegna er lögð áhersla á það. Ríkisfjármálin geta verið komin í sæmilega gott horf árið 2012 til að auðvelda okkur að greiða af lánunum. Vaxtakjörin liggja enn ekki fyrir og samningaviðræðum um hvaða vaxtakjör bjóðast á þessum lánum er ekki lokið.

Hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega hryðjuverkalögin sem virkjuð voru, ef svo má segja, til að kyrrsetja eignir Landsbankans í Bretlandi. Það er alveg sérstakt úrlausnarefni og auðvitað til skoðunar á okkar vegum með hvaða hætti við getum brugðist við því, hvort við getum sótt mál fyrir breskum dómstólum gegn breskum stjórnvöldum vegna þess hvernig þau beittu hryðjuverkalögunum. Við hljótum líka að taka upp hvarvetna á pólitískum vettvangi að þeir skuli hafa komið fram með þessum hætti, sem er algjörlega ólíðandi í samskiptum þjóða sem eiga að teljast vera vina- og samstarfsþjóðir. Við áskiljum okkur allan rétt til að skoða þau mál sérstaklega.

Við vonumst til að við þurfum sem minnst að draga á peningana sem við fáum að láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nýta þá þannig að þeir fari ekki út í kerfið. (Forseti hringir.) Eins varðandi Icesave þá vonumst við til þess að eignir Landsbankans komi að verulegu leyti upp í þau lán. Þannig að þótt talað sé um brúttó upphæðir er ekki þar með sagt að þetta fari allt saman út.