136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:27]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um stórt mál og mætti halda því fram að þessi umræða hefði átt að fara fram fyrr. En það þýðir ekki að fást um það í dag.

Ég vil segja að mér finnst það vera fagnaðarefni — ég vil nota það orð — mér finnst það vera fagnaðarefni að þessum áfanga skuli vera náð. En hvort það er þannig sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að það hefði verið unnið hörðum höndum í margar vikur til að ná þessum árangri getur verið umdeilanlegt. En eitt er víst og það er að við þurfum á trúverðugleika að halda, Ísland, við þessar aðstæður. Hann höfum við ekki haft. Honum höfðum við glatað og ég leyfi mér að trúa því og treysta því að það sem nú er að gerast með þessari lántöku og með þeim lántökum sem koma í kjölfarið séum við að byggja aftur upp trúverðugleika og þetta sé fyrsta skrefið í þá átt.

En ég gagnrýni þann seinagang sem hefur verið á allri meðferð málsins. Fyrst virtist fyrirstaðan vera í Seðlabankanum, að það hafi verið skoðun Seðlabankans að taka ekki lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fara ekki í þetta samstarf. Það blasti við. En síðan lendum við í milliríkjadeilu, tvíhliða til að byrja með en síðan í raun deilu við allt Evrópusambandið og fleiri þjóðir því að EFTA-þjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar stóðu algjörlega virtist vera með Evrópusambandinu í því að samþykkja ekki kröfur Íslands og samþykkja ekki lagatúlkun Íslands, enda stóð hún sennilega alltaf á veikum grunni.

Þess vegna leyfi ég mér að segja, hæstv. forseti, að það hafi verið haldið illa á málum. Ég spyr: Hvers vegna til dæmis hitti hæstv. forsætisráðherra Íslands aldrei forsætisráðherra Bretlands, Brown, kollega sinn, til þess að útskýra stöðu Íslands? Það kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að það tæki oft tíma að útskýra mál og það tæki tíma að útskýra kröfur og stöðu þjóða gagnvart annarri þjóð og það er sjálfsagt rétt. En miðað við að ekki var farin sú leið að tala beint undir fjögur augu við þessa valdhafa þá finnst mér að það hafi verið röng aðferð.

Auðvitað var það gríðarlega alvarleg aðgerð að beita hryðjuverkalögum á íslenskt fyrirtæki. Við vitum ekki í dag hvers vegna gripið var til þeirra aðgerða. Það virðist vera að minnsta kosti einn maður sem veit það. Sá er formaður bankastjórnar Seðlabankans miðað við það sem komið hefur fram á síðustu dögum. Hæstv. forsætisráðherra hefur látið að því liggja að það sé vegna aðgerða Kaupþings í sambandi við flutning fjármagns til Íslands. En það kemur fram hér í upplýsingum og greinargerð um umfjöllun í Bretlandi um þetta alvarlega mál að þeir hefðu alla vega talað saman í síma, hæstv. forsætisráðherra Íslands og Bretlands. Hann segir frá því og hann segir frá því að hann hafi sagt forsætisráðherra Íslands að aðgerðir Íslands væru ólöglegar og að þeir mundu frysta eignir í Bretlandi. Þetta er eitthvað sem ekki hefur áður komið fram að mínu mati og vildi ég gjarnan fá að heyra hjá hæstv. forsætisráðherra hvernig þetta samtal var við forsætisráðherra Bretlands sem mér sýnist að hafi farið fram 8. október.

Hæstv. forseti. Það kom kannski ekki alveg á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi beita þessum aðferðum í svokölluðum samningaviðræðum við aðrar þjóðir í þessu erfiða deilumáli, þ.e. að stappa niður fæti og skella hurðum. Það sem kemur mér dálítið á óvart og ég nefni hér er það að það var ekki síður Samfylkingin sem beitti þessum aðferðum og þá voru í forsvari fyrir þann flokk í ríkisstjórn hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin Sigurðsson. Allar þessar gjörðir eru mjög í ósamræmi við það sem kom hér fram hjá hæstv. utanríkisráðherra rétt áðan þegar hún segir, með leyfi forseta: „Við þurfum á öðrum þjóðum að halda og við eigum ekki að troða illsakir við aðrar þjóðir.“

Hvers vegna kemur Samfylkingin fram með þessum hætti í þessum viðkvæmu viðræðum og í þessari viðkvæmu stöðu miðað við þessi orð formanns Samfylkingarinnar áðan? Er það kannski eins og vant er að Samfylkingin beri enga ábyrgð á því sem ríkisstjórnin er að gera?

Annað hefur valdið þessum töfum eins og þær líta út frá mínum bæjardyrum séð og það varðar það að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki framtíðarsýn. Þetta hefur meira að segja komið fram núna mjög augljóslega hjá fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg, sem hefur verið með efasemdir um aðstoð við Ísland og segir að það vanti trúverðuga aðgerðaáætlun. Þetta lít ég mjög alvarlegum augum og við framsóknarmenn. Við höfum ekkert heyrt um það hvernig eigi að vinna sig út úr þessum vanda í sambandi við atvinnuuppbyggingu, í sambandi við nýtingu orkunnar og fleira

Hæstv. forsætisráðherra sagði sem viðbrögð við þessum orðum ráðherrans hins sænska, með leyfi forseta:

„Það liggur ekki á að svara þeirri spurningu enda höfum við ekki alveg gert það upp við okkur“

Þá er verið að tala um ríkisfjármálin til lengri framtíðar.

„Höfum ekki alveg gert það upp við okkur.“ Eru þetta boðleg svör við þessar aðstæður sem við Íslendingar búum við nú og þá miklu óvissu sem þjóðin stendur frammi fyrir?

Það er rétt að það þarf að byggja upp traust á íslensku fjármálakerfi. Ég tel að það sé kannski dálítil bjartsýni þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja að þetta verði kreppa í tvö ár, að þetta muni taka okkur tvö ár. Auðvitað vonum við öll að þetta verði ekki kreppa nema í tvö ár en miðað við að það heyrist ekkert af því hvernig við eigum að vinna okkur út úr vandanum finnst mér og því miður óttast ég að þetta verði meira en tvö ár. Það er vissulega búið að boða að hér komi aðgerðapakki sem varði fyrirtækin í landinu og atvinnulífið og við skulum vona að hann geti aukið á bjartsýni okkar um að þetta standist sem hæstv. ráðherrar eru hér að segja með þetta tveggja ára tímabil. En það verður að koma í ljós þegar það birtist. Ég endurtek að ég tel að það hafi verið dýrkeypt hjá ríkisstjórninni að halda Íslandi í algjörri einangrun í rauninni svona langan tíma áður en gefið var eftir og þá er ég að tala um svokallað Icesave-mál því að auðvitað var gefið eftir. Það er ekki hægt að neita því.

Ég vil líka aðeins tala áfram um framtíðarsýnina og hvernig hún getur blasað við okkur. Þá vil ég taka það fram að þó svo að svona hafi farið fyrir Íslandi í þessari svokölluðu útrás verðum við áfram að nýta þau tækifæri sem tengjast alþjóðavæðingunni. Markaðir heimsins verða áfram uppspretta framfara. Ég tók þátt í útrás. Ég tók þátt í útrás til dæmis til Kína sem varðaði nýtingu endurnýjanlegrar orku og get verið stolt af því. Það er einn af þeim málaflokkum sem við eigum að sinna frekar. Ég vitna til þess að nýr forseti Bandaríkjanna hyggst nota 150 milljarða dollara til að þróa nýja orkugjafa á næstu tíu árum og hann hyggst skapa 5 milljónir nýrra starfa. Hvað hyggst ríkisstjórn Íslands skapa mörg ný störf?

Það er kannski rétt í þessu sambandi að minna á flokkinn sem setti fram þá stefnu fyrir kosningar 1995 að skapa 12.000 ný störf og þau urðu eitthvað fleiri en það. Það skiptir máli að setja fram stefnu og reyna síðan að vinna að henni.

Hagvöxtur á síðustu öld byggðist mjög mikið á olíunni og nýtingu hennar. Á þessari öld mun það ekki verða þannig. Á þessari öld sem nú er nýbyrjuð verður endurnýjanleg orka í gríðarlega miklu hlutverki og þar eigum við Íslendingar tækifæri. Það er svo mikilvægt að við vitum og við séum sannfærð um að við eigum tækifæri á ákveðnum sviðum. Þá er ég ekki síst að tala um þekkinguna, útflutning þekkingar.

Hæstv. forseti. Nú er talað mikið um í þessu sambandi og í sambandi við þessa lántöku að Ísland þurfi að — þ.e. að það sem sé núna fram undan sé að fleyta krónunni eins og það er kallað. Ég er alveg sammála því að það sé stóra verkefnið sem er fram undan. Það þarf að fleyta henni á heppilegu gengi og ekki of háu. Það væri mikilvægt ef ríkisstjórnin segði hv. Alþingi og þjóðinni frá því hvernig hún muni starfa með Seðlabankanum við þessar aðstæður og að þessu mikilvæga verkefni sem nú er fram undan.

Hæstv. forseti sagði að það væri hætt við að krónan yrði fyrir skammtímaþrýstingi og það er áreiðanlega augljóst. En þetta er hið stóra verkefni sem nú er fram undan, að koma gjaldeyrisviðskiptum í lag og koma eðlilegu gengi á krónuna af því að við höfum ekki annan gjaldmiðil. Við höfum ekkert annað en krónuna til þess að nota, alla vega um sinn, þó að það sé nú löngu ljóst og hafi komið fram að ég tel ekki að hún sé framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland. Það hefur líka komið fram að það muni verða nauðsynlegt að beita hér tímabundinni gjaldeyrisskömmtun og það er ekkert um það að segja. En auðvitað þarf að fara yfir það hvernig það samræmist okkar aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sem ég reikna nú með að það geri ekki í raun. Ég held að við verðum að trúa því að það sé skilningur á að miðað við stöðu Íslands þá munum við þurfa að gera það um sinn.

Á sama tíma og við erum að fjalla um þessi gríðarlega alvarlegu mál á Íslandi eru Evrópusambandsþjóðirnar að hittast og núna undirbýr Evrópusambandið 130 milljarða evru björgunarpakka fyrir sínar aðildarþjóðir. Það samsvarar um einu prósenti af vergri landsframleiðslu hvers ríkis innan Evrópusambandsins.

Ég neita því ekki að þegar sú umræða var hér ofarlega í íslensku samfélagi að Íslendingar ættu að senda Evrópuþjóðum, okkar vinaþjóðum í Evrópusambandinu og á Norðurlöndum fingurinn, svo maður bara tali beint út eins og í raun hæstv. iðnaðarráðherra gerði hér í beinni útsendingu þá varð mér ekki um sel. Ég tel að framtíðarstaða okkar í samskiptum þjóðanna og í alþjóðasamfélaginu sé með þessum þjóðum í Evrópusambandinu og þess vegna er ég ánægð með að niðurstaðan skuli vera þessi en ekki sú að við sækjum lán til Kínverja og Rússa og einangrum okkur í raun frá vinaþjóðum okkar þó að einhverjir geti verið óánægðir með að þær hafi á tímabili ekki reynst okkur eins og við hefðum helst viljað.

Hæstv. forseti. Ég vil segja að lokum að mér finnst mjög mikilvægt að þetta tækifæri og það svigrúm sem skapast við lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra ríkja verði vel nýtt. Því miður hef ég ekki sannfæringu fyrir því að það verði, meðal annars vegna þess að ríkisstjórnin er ósamstíga í öllum sínum gjörðum. Það kom best fram við upphaf þessa fundar í dag.

Samstarfið við Seðlabankann er mér ráðgáta. Í því sambandi óska ég eftir upplýsingum um það hvort það hafi legið fyrir þann 15. október síðastliðinn þegar Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti um 3,5 prósentustig, þ.e. að þá þegar hafi legið fyrir að það væri fyrir séð í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að við yrðum að hækka stýrivextina í 18%. Ef svo er (Forseti hringir.) þá er það mjög alvarlegt mál sem varðar Seðlabanka Íslands.