136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:42]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég hef ræðu mína á því að taka upp mál sem vikið var að í morgun, það mikla mál sem við ræðum hér sem leiðir til þess að við munum skuldsetja íslensku þjóðina um mörg hundruð milljarða kr. Í upphafi máls míns vil ég víkja sérstaklega að því hvernig það hefur verið orðað í morgun en m.a. hefur verið sagt að við værum í mjög erfiðri stöðu. Ég tek undir það að við erum í mjög erfiðri stöðu en þetta var orðað þannig að við værum í mjög erfiðri stöðu vegna þess sem á okkur skellur. Ég hef alltaf skilið það orðasamband þannig að það væri þá eitthvað sem gerðist án þess að menn vissu til hvers gæti dregið. Skellur á okkur stormur eða fárviðri? Við sjáum það kannski ekki alltaf fyrir.

Ég legg nokkuð út af þessum orðum í ræðu minni vegna þess að seðlabankastjóri, fyrrverandi forsætisráðherra þessa lands, Davíð Oddsson, hefur upplýst okkur um að haldnir hafi verið veigamiklir samráðsfundir um hið alvarlega mál sem við tökumst nú á við og „skellur“ á íslensku þjóðinni eins og það var orðað. Hann segir að haldnir hafi verið samráðsfundir í febrúar með hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra eða forustumönnum ríkisstjórnarinnar — eins og ég held að seðlabankastjóri hafi orðað það — þar sem menn höfðu sérstaklega verið varaðir við því í hvað stefndi. Í ræðu seðlabankastjóra sagði eitthvað á þá leið að eftir að sendinefnd Seðlabankans hefði farið til Bretlands og hitt þar að máli ýmsa menn sem eru í fjármálageiranum, lánveitendur og smáfyrirtæki, hefði mönnum mjög brugðið sem í sendinefndinni voru við þau skilaboð sem seðlabankastjóri fékk. Hann hefði séð ástæðu til þess að óska eftir sérstökum fundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar um stöðuna þar sem þeim hefði skilmerkilega verið greint frá þeim vanda sem fram undan væri.

Ef ég hef tekið rétt eftir fréttum — ég ætla ekki að fullyrða um að ég hafi tekið eftir öllu sem sagt var í fréttum — voru ýmis svör við þessari fullyrðingu til að byrja með hjá hæstv. forustumönnum ríkisstjórnarinnar en ég tók samt eftir því að eftir einhverja þingflokksfundi í Samfylkingunni, einn, tvo eða þrjá — ég veit ekki hversu marga — upplýsti hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að haldnir hefðu verið sex fundir með seðlabankastjóra um þessi mál og fyrsti fundurinn hefði verið 6. febrúar.

Við, forustumenn stjórnarandstöðunnar, höfum átt nokkra samráðsfundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Ég tel að ég hafi þokkalegt minni. Ég minnist þess þó ekki að okkur hafi nokkurn tíma verið sagt frá því að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi sérstaklega verið varaðir við því í hvað stefndi í febrúar sl. og menn hafi verið meðvitaðir um það til hvers gæti dregið sem endaði síðan með því að íslenska þjóðin var sett í þá erfiðu stöðu sem hún er í nú. Þess vegna beini ég þeim spurningum til forustumanna ríkisstjórnarinnar hvort þeim hafi ekki verið ljóst eftir þessa fundi með hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, núverandi seðlabankastjóra, Davíð Oddssyni, í febrúar sl. til hvers mundi draga. Nú er haft á orði að allt í einu hafi eitthvað skollið á okkur sem enginn hafi varað við. Ég held að ekki sé hægt að draga þá ályktun ef maður leggur annars vegar út af ræðu seðlabankastjóra og hins vegar því sem síðan hefur verið upplýst en að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi vitað betur og vitað það fyrr en látið er í veðri vaka.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að svo skuli vera og að við höfum síðan ekki gert nægilega mikið til að takast á við þann vanda sem fram undan væri, meðal annars ekki leitað eftir lánveitingum til að styrka gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega á vetrar- og vordögum. Alþingi veitti heimild á vordögum til þess að bregðast við en skyndilega liggur bankakerfið algerlega flatt og við stöndum frammi fyrir því að þurfa að taka á okkur geysilegar skuldbindingar. Ég heyrði ekki hæstv. utanríkisráðherra mótmæla því í morgun þegar hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi í andsvari við utanríkisráðherra töluna 1.400 milljarða kr. Það er sennilega nærri lagi miðað við það sem nú er ljóst því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir okkur lán upp á tæpa 300 milljarða og önnur ríki eins og Finnar, Danir, Svíar og Norðmenn upp á 350 milljarða kr. Síðan hafa Færeyingar af rausnarskap sínum veitt okkur lán og Rússar og Pólverjar hafa lýst yfir að þeir vilji lána okkur fjármuni. Síðan erum við sjálf búin að yfirdraga á þá lánalínu sem við höfðum samið um við Norðurlandaþjóðirnar. Ég held því að það liggi fyrir að það sé ekki lengur rétt sem stendur í plagginu sem við ræðum í dag, í samþykktunum sem ríkisstjórnin gekkst undir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að við stefnum í skuldir sem nema 80% af vergri landsframleiðslu. Mér sýnist að við förum upp fyrir það sem við köllum verga landsframleiðslu hvers árs.

Segja má að við höfum verið neydd til að taka á okkur skuldbindingarnar varðandi Icesave-reikningana þó að við höfum sjálfsagt alltaf þurft að horfast í augu við ábyrgðina sem Tryggingarsjóður innlánsstofnana átti að standa skil á, 20.887 evrur. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort komið sé samkomulag við Breta um að þeir leggi okkur lið við að varðveita þær eignir sem eru í Bretlandi og tengjast Landsbankanum og gætu orðið til að ganga upp í þær skuldbindingar sem við tökum á okkur í Bretlandi varðandi Icesave-reikningana. Ég held að nauðsynlegt sé að fá það upplýst því að mér sýnist að þegar við tölum um heildarupphæðina og þá erfiðu stöðu sem fylgir fyrir íslensku þjóðina verði mjög erfitt fyrir okkur að standa uppi með allar þær skuldir ef ekki kemur annað kemur á móti eins og verðmæti bankanna í Englandi til að lækka þær ábyrgðir.

Ég spyr einnig hvort hæstv. forsætisráðherra geti upplýst okkur um það nú hvaða viðskiptakjör við fáum á lánum eins og frá Norðurlandaþjóðunum eða öðrum þeim ríkjum sem boðið hafa fram aðstoð eins og Þýskaland og Holland. Hvaða vextir eru af þessum lánum? Eru þetta afborgunarlaus lán sem veita okkur tíma til að takast á við vandann eða gilda um þau sömu skilyrði og um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að greiða skuli allt upp á árunum 2012–2015?

Það er alveg ljóst og er aðalefni þeirrar stöðu sem við erum nú í að íslenska þjóðin mun þurfa að bera miklar byrðar vegna þess sem gerst hefur hér á landi að því er varðar fjármálakerfið og bankastarfsemina. Ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir því sem hugsa um þessi mál að þær byrðar lenda harðast á því fólki sem er á aldursbilinu 15–45 ára. Það hlýtur að koma harðast niður þar. Það er fólkið sem kemur inn á vinnumarkaðinn á næstu árum eða er þar þegar. Það er fólkið sem hefur stofnað til skuldbindinga varðandi heimili sín og hefur tekið lán sem hækka mjög í verðbólgunni og verðtryggingunni, keyra hratt upp á sama tíma og eignastaða fólks í íbúðarhúsnæði fellur. Það fólk horfir upp á að missa eignir sínar að stórum hluta. Það er barnafólkið og öflugasti hópurinn á vinnumarkaði.

Nú liggur mikið við, hæstv. forseti, þegar við horfum fram á þær skuldbindingar sem lenda á íslensku þjóðinni, að halda uppi sem mestri atvinnu, afla sem mestra tekna. Ég minni á tillögu okkar, þingmanna Frjálslynda flokksins, um að auka aflaheimildirnar verulega, taka þá áhættu til að búa til tekjur. Ég minni á tillögur sem við höfum flutt um að heimila almennan frádrátt fyrir þá sem þurfa að sækja atvinnu um lengri veg. Hvers vegna nefni ég þessi tvö dæmi? Ég nefni þau einfaldlega vegna þess að það er hluti af því að halda uppi virkri atvinnustarfsemi, halda uppi tekjum í þjóðfélaginu. Við í þingflokki Frjálslynda flokksins munum alla vega styðja tillögu sem gæti orðið til þess að halda uppi atvinnustiginu því að nógu erfitt verður samt hjá fólki í landinu þó að við missum ekki tekjur verulega niður vegna allt of mikils atvinnuleysis. Við tökum ekki aðeins á okkur þær skuldbindingar sem ég hef þegar nefnt. Við tökum jafnframt á okkur skuldbindingar sem munu fylgja því að þurfa að keyra fjárlögin í gegn með verulegum halla fyrir næsta ár, m.a. í þeim tilgangi að halda uppi atvinnustiginu. Að fjöldamörgu er að hyggja og það sem okkur ber fyrst og fremst að standa vel að er að tryggja starfsemi atvinnufyrirtækjanna, atvinnulífsins og vernda stöðu fjölskyldnanna í núverandi stöðu. Ég minni á að við höfum lagt það til, þingmenn Frjálslynda flokksins, að verðtryggingin verði afnumin, að menn fari að vinna skipulega að því að afnema verðtrygginguna.

Það má spyrja sig margra spurninga út frá þeim tillögum og þeirri atriðaskrá sem lögð er fram sem samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar höfum við mestar áhyggjur af því að okkur muni reynast erfitt og dýrt að setja krónuna á flot. Ég spyr að því er varðar lið nr. 22 þar sem segir að á meðan á þessu stendur þurfum við að biðja um tímabundið samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir gjaldeyrishöftum. Er það svo, hæstv. forseti, að við þurfum að bera það undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hvort við megum halda uppi tímabundinni gjaldeyrisskömmtun um lengri eða skemmri tíma? Ég tel að í núverandi stöðu sé afar varasamt að setja krónuna á flot og sérstaklega ef ekki fylgja því harðar stýriaðgerðir að því er varðar útstreymi á gjaldeyri. (Forseti hringir.) Við gætum horft á fjármuni okkar, sem við tökum nú að láni dýru verði, fara til einskis.