136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þetta er afar mikilvæg og nauðsynleg umræða og það er ekki síður mikilvægt og nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til þeirra hluta sem hér um ræðir.

Umræðan fram til þessa hefur verið mjög skilmerkileg. Ræðumenn hafa farið ýmsar leiðir til þess að nálgast umræðuefnið. Sumar ræðurnar hafa verið á mjög tilfinningaríkum nótum, aðrar hafa verið raunsæjar. Ég held þó, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að hann beri, og ég tel allir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára, ugg í brjósti yfir því ástandi sem nú er. Það er einmitt vegna þessa ástands sem verið er að grípa til aðgerða í samráði og samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nágranna- og vinaþjóðir okkar.

Hvers vegna er svona nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða, að leita eftir lánsfé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannaþjóðum okkar og gera samkomulag um hvernig stjórnvöld okkar ætli að bregðast við? Jú, vegna þess að ein alvarlegasta afleiðing þess að bankarnir okkar hrundu, og sú afleiðing sem sennilega skiptir mestu máli hvað varðar þróun annarra þátta og þróun mála í framtíðinni, er að gjaldeyrismarkaðirnir hafa verið óvirkir á undanförnum vikum. Það hefur ekki verið eðlileg verðmyndun á krónunni og þau viðskipti sem alla jafna fara fram á þessum mörkuðum með krónuna og aðra gjaldmiðla og skipta gríðarlega miklu máli fyrir allt efnahagslíf þjóðarinnar hafa ekki getað farið fram.

Ef þetta ástand yrði viðvarandi yrði miklu þrengra um að bregðast við í framhaldinu. Ekki bara til skemmri tíma heldur líka til lengri tíma. Það er því lykilatriði að við komum gjaldeyrismörkuðunum til þess að virka á eðlilegan hátt á ný. Til þess að það geti gerst þarf nokkra fjármuni og þótt við höfum að sumu leyti verið vel stæð hvað varðar gjaldeyrisvarasjóðinn er það ekki nóg til þess að sú aðgerð að setja krónuna á flot aftur sé byggð á nægilega trúverðugum forsendum. Þá skiptir máli að hafa bakstuðning í því láni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og nágrannaþjóðir okkar munu veita okkur.

Menn hafa haft áhyggjur af því að þetta sé kostnaðarsamt. Að það sé verið að eyða peningum í að koma krónunni á flot aftur og við eigum að hugsa okkur tvisvar um áður en slíkt er gert. Ég held að þegar menn halda þessu fram hljóti það að byggjast á misskilningi því það er ekki verið að eyða þessum peningum í eitthvað. Ef mikið gjaldeyrisútstreymi verður eru þessi lán til staðar svo að það geti orðið án þess að það verði gjaldeyrisþurrð eða gjaldeyrisþröng og verðmyndun á gjaldmiðli einkennist af skorti á erlendum gjaldmiðlum. Með öðrum orðum, þetta gerir okkur kleift að láta markaðinn mynda verð á krónunni á eðlilegan hátt aftur.

Jafnvel þó að þetta gerist á þennan hátt er ekki verið að gefa þennan gjaldeyri. Fyrir hann koma auðvitað krónur og þeir hv. þingmenn sem telja að betra væri að nýta fjármunina til þess að styrkja atvinnulífið og heimilin og hag þeirra þurfa ekki að hafa áhyggjur. Þær krónur sem þar koma fyrir eiga að nýtast til þess að styrkja atvinnulífið og heimilin í gegnum bankakerfið á eðlilegan hátt innan þess ramma sem Seðlabankinn hefur hverju sinni.

Þetta skiptir einmitt heimilin og atvinnulífið mestu máli því verðbólgan fer verst með okkur öll sem raunverulega samanstöndum af þessum tveimur aðilum. Það að ná tökum á gjaldeyrismarkaðnum og gengi krónunnar verði aftur stöðugt er fyrst og fremst til þess fallið að koma böndum á verðbólguna, því í dag er hreyfing á gjaldmiðlunum eini þrýstingurinn á verðbólguna.

Hvað þýðir þá að fara út í þessa aðgerð? Það þýðir að við erum að stíga fyrsta skrefið út úr þeirri kreppu sem við höfum verið í að undanförnu. Þetta er auðvitað ekki eina aðgerðin sem við þurfum að gera eða höfum gert. Við höfum gert býsna margt til þess að verja stöðu bæði heimila og fyrirtækja í kreppunni en þetta er fyrsta skrefið út úr kreppunni, til að ná tökum á gjaldeyrismarkaðnum.

Hvað svo? Það þýðir það að þeir atvinnuvegir sem skapa okkur gjaldeyri eru á traustari forsendum. Þeir geta komið óhindrað með fjármuni til landsins og átt viðskipti í erlendum gjaldmiðlum við sína viðskiptaaðila erlendis. Grundvöllurinn fyrir því að viðskipti inn og út úr landinu geti verið eðlileg er auðvitað að gjaldeyrisskapandi atvinnuvegir geti starfað eðlilega. Þetta er líka grundvöllur fyrir því að bankarnir geti starfað eðlilega. Ef okkur tekst að koma málum þannig fyrir að lánardrottnar okkar erlendis verði sáttir við okkur eiga bankarnir möguleika á að fá fjármagn frá útlöndum til þeirra hluta sem við þurfum á að halda í frekari uppbyggingu atvinnulífsins og til frekari verðmætasköpunar á næstu árum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í því sem við gerum á næstu árum að skapa meiri verðmæti því óhjákvæmilega hefur þessi kreppa í för með sér að skuldir ríkissjóðs munu aukast verulega, frá því að vera engar í að vera jafnvel yfir 100% af landsframleiðslu um einhvern tíma.

Það hvarflaði að mér þegar ég hlustaði á ræður tiltekinna ræðumanna hér í dag að þeir vildu hvorki koma á virkum gjaldeyrismarkaði né endurreisa bankakerfið og þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að það kostaði peninga að gera hvort tveggja. Ég trúi þó ekki að þetta hafi verið raunveruleg skoðun hv. þingmanna heldur vegna tilfinninga sem auðvitað koma fram þegar svona aðgerðir eru í gangi. Við erum að gera samkomulag við alþjóðlega stofnun um hvernig við ætlum að haga hlutunum hjá okkur. Við gerum það á forsendum þess að þessir aðilar koma okkur til aðstoðar. Það er aðstoð sem við þurfum raunverulega á að halda og við ætlum að nýta hana í tilteknum tilgangi. Því held ég að við þurfum að horfa frekar bjartsýnum augum fram á veginn og vonast til þess að vel takist til með að koma krónunni á flot aftur.

Hjá hv. þingmönnum hefur einnig komið fram að þeir efast um vilja og getu Seðlabankans til þess að koma krónunni á flot aftur. Ég held að allir ættu að geta séð eftir tiltölulega litla umhugsun að enginn ætti að hafa meiri metnað en Seðlabankinn og stjórnendur þar til þess að koma krónunni aftur af stað á eins fljótan og öruggan hátt og mögulegt er. Skuldir ríkissjóðs munu auðvitað hækka mikið við þetta. Við verðum hins vegar líka að hafa í huga að þar er ákveðin óvissa og þessar tölur sem við erum að tala um eru í flestum tilvikum þær hæstu sem upp komu. Ef vel gengur munu þær hins vegar verða lægri og þá verður staðan önnur en svartsýnustu spár telja.

Óvissan felst í því hversu mikið við þurfum raunverulega að reiða af hendi vegna Icesave-reikninganna. Hversu mikið vantar upp á að eignir Landsbankans dugi fyrir þeim greiðslum og einnig hversu vel okkur tekst að fá til baka það fé sem við höfum notað við endurreisn bankanna. Hvort tveggja eru raunverulegir möguleikar til þess að staðan verði mun betri en svartasta mynd sýnir í dag. Tíminn einn og úrvinnsla þessara mála mun leiða það í ljós en okkur ber að takast á við framtíðina með bjartsýni og fyrsta verkið er að koma aftur á virkum gjaldeyrismarkaði.