136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:22]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það var náttúrlega ekki neins að vænta frá hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu á vitrænum nótum, hann reynir að fara í eitthvert pólitískt karp um eitthvert bull og litlar staðreyndir um það sem þarf að gera eða hvernig við eigum að halda á hlutunum — og kannski léleg útskýring á því hvernig við héldum ekki á hlutunum og höfum þess vegna verið að halda áfram að gera mistök.

Það er nú einu sinni þannig, bæði til sjós og lands, að fræðingar eru ekki allt. Ég hefði í sumum tilfellum frekar viljað hafa húsmóður, sem hefði tekið þátt í því að ala upp börnin sín og koma þeim á legg, í fjármálaráðuneytinu en hæstv. dýralækni. Það er ekki alltaf menntun — og við erum með fræðingasamfélag, við erum með hagfræðinga, lögfræðinga, viðskiptafræðinga, stærðfræðinga og alls konar fólk með stór og mikil próf og þetta fólk er að sigla þjóðfélaginu okkar í strand og valda þessu raunverulega þjóðargjaldþroti.

Auðvitað er þjóðin ekkert annað en gjaldþrota í dag. Það er ekki hægt að segja neitt annað. Þúsundir fjölskyldna hafa misst allt sitt og allt baksið sem margir eru búnir að vera í er farið í burtu — farið til helvítis ef svo má að orði komast. Það þarf kannski að taka stórt upp í sig og tala á mannamáli svo að fólk skilji hlutina. En það eru fræðingarnir sem hafa stjórnað, þeir hafa verið notaðir til ráðgjafar og eru að bregðast þjóðinni meira en húsmæður í þessu landi.