136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu hér fyrr í dag að nú dygði ekki að einangra sig. Við yrðum að opna allar gáttir. Við þyrftum á öðrum að halda. Undir það vil ég taka. Spurningin er hins vegar hvar við leitum okkur vina.

Við gagnrýndum það í upphafi þeirrar miklu kreppu sem við stöndum frammi fyrir að ríkisstjórnin sýndi ekki meiri eindrægni í leit að aðstoð hjá okkur vinveittum aðilum og þá áður en leitað var til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðan hefur stillt okkur upp í þá nauðung sem við nú stöndum frammi fyrir. Því það var vitað að þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi á vettvang yrði hans fyrsta verkefni að tryggja skyldur okkar gagnvart hinu alþjóðlega fjármálakerfi samkvæmt þeim formúlum sem hann hefur upp á vasann. Og það eru ekki formúlur sem eru hagfelldar almenningi. Það hefur hann sýnt þar sem hann hefur komið við sögu, hvort sem það er í Evrópu, Suður-Ameríku eða annars staðar. Nú hefur honum tekist það ætlunarverk sitt að láta okkur knékrjúpa fyrir Bretum og öðrum aðilum án þess að við létum reyna á samningsforsendur sem væru Íslendingum hagfelldar.

Núna þegar verið er að hlaða skuldaklyfjunum á skattgreiðendur, ekki bara í núinu heldur á ungar axlir upprennandi kynslóðar, standa þau hér formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Samfylkingarinnar og óska hvort öðru til hamingju. Það hafa stjórnarliðar einnig gert hver af öðrum. Þeir óska hver öðrum til hamingju. Um leið og þeir keyra vextina upp þannig að hvorki fyrirtæki né heimili fá undir þeim risið þá standa þeir á Alþingi og óska hver öðrum til hamingju.

Þetta var gáttin sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn byrjuðu á að opna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En ég spyr: Á hvaða vinum þurfum við fyrst og fremst að halda? Á hverjum þurfum við fyrst og fremst að halda? Er það ekki hvert öðru? Þurfum við ekki á þjóðarsamstöðu að halda? Þarf ekki ríkisstjórnin á því að halda að hafa góða samvinnu við íslensku þjóðina? Er það ekki þangað sem hún á fyrst að horfa? En hvað gerir hún? Hún gengur ekki bara á bak við Alþingi heldur þjóðina þegar hún gengur frá skuldbindingum sínum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hún neitar að upplýsa þjóðina um þær forsendur sem hún er reiðubúin að leggja til grundvallar. Og ég gef ekkert fyrir það, ekki neitt, að hún hafi ekki haft til þess leyfi eða getað tekið til sín réttinn að ræða við Íslendinga og ræða á Alþingi Íslendinga hvaða forsendur við gætum hugsað okkur að leggja til grundvallar ef við á annað borð leituðum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er einfaldlega ósatt að hún hafi ekki getað gert það. Það var hennar val að fara á bak við þjóðina í þessu efni.

Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, sagði að við byggjum við mikla aðgerðastjórn. Öðru máli gegndi um stjórnarandstöðuna, sérstaklega Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Hún hefði ekki teflt fram neinum tillögum. Það hefði ríkisstjórnin gert og orðum hefðu fylgt athafnir. Við höfum séð þær. Við höfum séð vextina æða upp eins og dæmin sanna. Stýrivextir voru samkvæmt þessu plaggi og samþykki ríkisstjórnarinnar færðir upp um 50% sem skilar sér strax inn í dráttarvexti og sem skilar sér strax inn í allt vaxtakerfið í landinu með hrikalegum afleiðingum fyrir skuldsett heimili og skuldsett fyrirtæki. Þetta er það sem ríkisstjórnin hefur gert.

Hún hefur gert meira. Hún hefur dustað rykið af gömlum tillögum, gömlum lögum og reglugerðum frá níunda áratugnum sem ganga allar út á það að lengja í hengingarólinni. Engin þeirra gengur út á það að létta hinar raunverulegu klyfjar eða draga úr þeim. Fyrst og fremst er verið að skjóta vandanum á frest. Ekkert annað.

Hvað höfum við gert? Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við sett fram tillögu um að færa vextina niður með handafli, með lögum. Að leggja við því bann að vextir ofan á verðtryggð lán verði hærri en 2%. Hvar eru þeir núna? Þeir voru 5,4% á húsnæðislánum alla vega fyrir fáeinum dögum. Ef við færum okkar leið værum við að draga verulega úr byrðum skuldugra heimila. Út á það ganga tillögur okkar.

Nú eru þau boð látin út ganga fyrir stofnanir í velferðarþjónustunni, þar á meðal til sjúkrahúsa landsins, að þau eigi að skera niður um 10%. Þetta eru tillögurnar sem Samfylkingin er að monta sig af og hafa m.a. leitt til þess að skurðstofunni í Keflavík hefur verið lokað og þrengt að fæðingardeildinni þar. Gott ef ekki á að loka henni líka. Rúðustrikaður niðurskurður. Þetta er ríkisstjórnin sem talar um að við þurfum á vinum að halda og að við þurfum á því að halda að opna allar gáttir. En þetta er framkoman gagnvart íslenskri þjóð. Tillögur okkar ganga út á samráð við starfsfólk í velferðarþjónustunni og samráð við verkalýðshreyfinguna um það hvernig við bregðumst við í þeim mikla vanda sem blasir við.

Hæstv. fjármálaráðherra kom hér í pontu fyrir stundu. Hann sagði að þetta væri mikilvæg umræða. Mikilvæg umræða? Í 24. lið plaggsins sem liggur hér fyrir segir, með leyfi forseta:

„Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé. Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, svo og fjármagn til að gera upp nauðsynlegar greiðslur tengdar erlendum innstæðum, en afgangurinn er sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar bandaríkjadala.“

Er mikilvægt að við tökum þessa umræðu á Alþingi núna eftir að plaggið hefur verið sent frá okkur? Eftir að búið er að leggjast á hnén gagnvart erlendum lánardrottnum leyfir hæstv. fjármálaráðherra sér að koma hér í pontu og segja við Alþingi: Það er tímabært að fara að spjalla um þetta við ykkur. Hvers konar alvöruleysi er þetta? Munið þið þegar bankarnir voru einkavæddir á tíunda áratugnum og síðan seldir 2002 eða 2003? Þá var sagt að það væri úrelt og gamaldags að reka banka. Þeir ættu ekki að vera á vegum samfélagsins. Við sögðum að þegar á reyndi þá væru þeir á vegum samfélagsins. Það yrði að axla byrðarnar ef fjármálakerfið hryndi og nú er það að gerast. Og nú vill þjóðin, sem á að axla þessar byrðar, koma að því máli á annan hátt en ríkisstjórnin býður upp á.

Hæstv. forsætisráðherra segir að það hafi vakið athygli sína að erlendis njóti ríkisstjórn Íslands trausts. Ég er nýkominn að utan. Í breska Verkamannaflokknum, þar sem ég flutti ávarp fyrir nokkrum dögum, og (Forseti hringir.) hjá norrænu verkalýðshreyfingunni, þar sem ég sat fund í vikunni, spyrja allir: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin, sem ber ábyrgð á því hvernig komið er, hefur ekki sagt af sér? (Forseti hringir.) Svo segir hæstv. forsætisráðherra að við njótum svo mikils trausts erlendis. Hvers vegna er Austurvöllur fullur af fólki laugardag eftir laugardag? Hvers vegna er verið að halda fundi um allt land (Forseti hringir.) til að krefjast þess að ríkisstjórnin fari frá og efnt verði til kosninga í landinu? Það er vegna (Forseti hringir.) þess að hún nýtur einskis trausts og á að fara frá.