136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Eftir að ég talaði í henni fyrr í morgun kom hér þingmaður og var miður sín vegna þeirra orða sem frá mér féllu og vegna þess að ég skyldi sem stjórnarþingmaður leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra spurninga.

Ég vil af því tilefni upplýsa hv. þingflokksformann Framsóknarflokksins að það er sjálfsagt og eðlilegt að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga spyrji spurninga. Við hljótum að læra af þeim áratug sem núna er liðinn, áratug gagnrýnisleysisins sem á sannarlega stóran þátt í því hvert við erum komin, að þurfa að endurskoða afstöðu okkar til umræðna og umfjöllunar hér á Alþingi, skerpa á umræðum okkar, á gagnrýni okkar og á því að spyrja þeirra spurninga sem á okkur brenna og vera við það algerlega ófeimin. Sú umræðuhefð sem hér hefur þróast á undanförnum áratug hefur sannarlega ekki reynst vera okkur sem samfélagi til framdráttar.

Á undanförnum vikum hefur hins vegar verið full ástæða til þess fyrir alla ábyrga menn að gæta hófs í umfjöllun um það sem gerst hefur. Ástæðan hefur auðvitað verið sú að hér hefur verið farinn leiðangur, land úr landi, í því skyni að afla nauðsynlegs lánsfjár, neyðarláns fyrir landið, fyrir samfélagið til þess að hér sé hægt að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur og hægt verði að ráðast í aðgerðir til þess að bjarga heimilunum. Meðan að á þeim leiðangri stóð var sjálfsagt og eðlilegt að menn reyndu almennt að halda aftur af sér í umfjöllun um það sem gerst hefur. En nú er það sem betur fer í höfn. Það er fengin aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við getum horft fram á veginn um það með hvaða hætti við getum farið að byggja okkur upp úr því sem gerst hefur. En þá verðum við líka að ræða það af hreinskilni og af heiðarleika með hvaða hætti við þurfum að standa þar að málum. Vegna þess að það sem við höfum nú fengið eru gríðarlegir fjármunir frá alþjóðasamfélaginu og frá vinaþjóðum okkar og viðskiptaþjóðum og þeir fjármunir eru allir fengnir að láni. Þau lán eru tekin ofan á þá gríðarlegu skuldsetningu sem þegar er orðin og ofan á þann mikla hallarekstur sem fyrirsjáanlegur er á ríkissjóði á næstu mánuðum og árum.

Það er þess vegna algjört úrslitaatriði fyrir farsæld okkar að það verði haldið vel á þeim fjármunum sem við nú höfum fengið, að gætt verði að trúverðugleika okkar og trausti í hvívetna og að þeir sem fyrir því fari séu hafnir yfir efasemdir og gagnrýni, séu færustu fagmenn sem við höfum á þessu sviði en ekki þeir sem sífellt efna til deilna og reyna að grafa undan trúverðugleika íslensks samfélags. Við þurfum þess vegna að ræða það hverjum við viljum treysta fyrir þeim fjármunum sem hér er um að ræða, líka vegna þess að þegar við skoðum það með hvaða hætti aðrar þjóðir sem lent hafa í sömu stöðu, með hvaða hætti þær hafa brugðist við þá komumst við að því að því miður hafa ýmis ríki orðið fyrir því að gera aftur mistök, eftir að hafa fengið aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Að lenda aftur í vanda, jafnvel oftar en einu sinni og skuldsetja sig sífellt meir og það ekki síst þegar menn hafa, eftir að hafa brotlent, ofmetið stöðu sína og reynt í framhaldinu að halda uppi óraunhæfu verði á gjaldmiðli sínum. Við þær aðstæður, þegar menn hafa brotlent hagkerfi og allt fé leitar út úr því sem leitað getur, þá hefur aðstoðin einfaldlega á örskömmum tíma sogast út.

Ég held að þær umræður sem hér hafa farið fram af hálfu þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi og lesa má um í frumvörpum frá a.m.k. þremur ef ekki fjórum af stjórnmálaflokkunum sem sitja á Alþingi, um nauðsynina á faglegri forustu í þessum efnum, sé eðlileg og sjálfsögð og það sé nauðsynlegt fyrir okkur að ræða það grundvallarskilyrði fyrir því að fara í þessa vegferð einmitt núna á þessum tímapunkti.

Við eigum hins vegar að vera ánægð og þakklát fyrir að hafa notið þessa stuðnings í þeirri stöðu sem við erum í. Hann mun skipta gríðarlega miklu máli á næstu mánuðum og missirum í uppbyggingarstarfinu hér í landi í því verkefni að verja atvinnufyrirtækin í landinu eftir fremsta megni og í því verkefni að reyna að lágmarka skaðann af því tjóni sem við höfum orðið fyrir sem þjóð.

Ég held að með samstilltu átaki séu okkur vegir færir í því. En það er þá algerlega nauðsynlegt að við horfumst í augu við stöðu okkar, að við ræðum hana af hreinskilni og segjum ekki bara að það megi ekki í orðræðu draga undan trúverðugleika okkar af því menn lesi um það í útlöndum. Við verðum að marka skýra stefnu um það með hvaða hætti þessir fjármunir verði nýttir á næstu árum til uppbyggingarstarfs.